Stúdentaráð Háskóla Íslands tekur undir ummæli Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um þörf þess að endurskoða útlánakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN, í heild sinni. Ráðið telur að hugsa þurfi útlánakerfið upp á nýtt með norræn námslánakerfi að fyrirmynd.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Stúdentaráði vegna nýútkominnar ársskýrslu LÍN og ummæla menntamálaráðherra í kjölfarið. Í yfirlýsingunni segir að afskriftir námslána séu í raun falinn styrkur og að þær séu sönnun þess að núverandi kerfi geti ekki gengið til lengdar. „Eins og fram kemur í ársskýrslunni endurgreiða einstaklingar sem skulda LÍN undir 2,5 milljónir króna 85% af láninu á meðan þeir sem skulda LÍN yfir 15 milljónir króna endurgreiða aðeins milli 18-27 % af lánunum sínum. Með öðrum orðum þá afskrifast þau lán sem eru yfir 15 milljónir króna að miklu leyti.“ Bent er á að þessar afskriftir lána hafa aukist ár frá ári, síðast um 2,8 milljarða króna. „Þetta er rekstrarfyrirkomulag sem engan veginn gengur og fagnar Stúdentaráð þeirri ákvörðun ráðherra að fara í heildarendurskoðun.“
Með endurskoðuðu útlánakerfi að norrænni fyrirmynd væri hægt að hafa styrkina í boði fyrir alla og gætt yrði jafnvægis, segir ráðið. „Stúdentaráð telur að hægt sé að nýta útlánakerfi að norrænni fyrirmynd til að styðja nemendur að klára á „réttum“ tíma. Þannig kerfi er notað í Noregi þar sem lánum nemenda er að hluta breytt í styrk útskrifist þeir innan tímaramma. Það hefur aukin þjóðhagslegan ábata þar sem það kostar menntakerfið að hafa nemendur sem taka sér langan tíma við að brautskrást.
Með því að fara að þessari norrænu fyrirmynd væri hægt að breyta framfærsluláninu í styrk og þar með jafna hlut námsmanna óháð því hversu há lán þeir taka,“ segir í yfirlýsingunni.
Námslánin hækkuðu, vanskil jukust
Heildarútlán Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2013 til 2014 námu 16,2 milljörðum króna. 11.768 námsmenn fengu afgreidd lán á þessu skólaári en greiðendur námslána voru ríflega 35 þúsund talsins. Þetta kemur fram í ársskýrslu LÍN sem var birt á mánudag.
Meðalupphæð námslána fer hækkandi og mesta fjölgunin er meðal námsmanna sem skulda meira en tólf milljónir króna. Þá hefur meðalaldur greiðenda hækkað vegna þess að námsmenn fara í lengra nám en áður og eru eldri þegar þeir hefja nám.
7,6 milljarðar króna voru lagðir í afskriftasjóð LÍN árið 2014, sem er mun meira en þeir 2,8 milljarðar sem voru settir í sjóðinn árið 2013. Þetta stafar af því að gjaldþrotum fjölgaði á milli áranna, úr 0,15 prósentum í 0,30 prósent, og vegna þess að meðalafborgun námslána hefur farið lækkandi milli ára. Færri fengu hins vegar undanþágur frá því að borga til baka árið 2014 en árið á undan, eða 4 prósent í stað 5 prósenta.
Vanskilum fjölgar líka milli ára, en þau eru algengust hjá fólki sem býr í útlöndum og þeim sem hafa tekjur undir 250 þúsundum á mánuði. Vanskil hafa líka aukist hjá yngri lánþegum, sem lánasjóðurinn segir áhyggjuefni af því að slík þróun getur bent til aukinnar afskriftarþarfar á næstu árum.
Afskriftasjóður LÍN stendur í 41,5 milljörðum króna, og nemur tæplega tuttugu prósentum af heildarútlánum LÍN. Núvirt virði heildarútlána LÍN er 133 milljarðar, 38,5 milljörðum lægra en bókfært virði þeirra. Munurinn kemur til vegna þess að sjóðurinn lánar námsmönnum á lægri vöxtum en sjóðurinn sjálfur fær til að fjármagna sig.