Miklar vonir voru bundnar við að knattspyrnuliðið New York City FC (NYCFC) yrði mikil lyftistöng fyrir bandarísku atvinnumannadeildina í fótbolta. Þegar tilkynnt var um stofnun liðsins í maí, sem er í sameiginlegri eigu þeirra sem eiga enska úrvalsdeildarliðið Manchester City og bandaríska hafnaboltaliðið New York Yankees, vonuðust margir eftir því að með tilkomu liðsins myndi hver stórstjarnan á fætur annarri streyma til Bandaríkjanna til að spila fótbolta.
Vonir bandarískra knattspyrnuáhugamanna í New York tóku stökk þegar tilkynnt var um að liðið hefði tryggt sér starfskrafta enska miðvallarleikmannsins Frank Lampard og spænska markahróksins David Villa. En nú eru farnar að renna tvær grímur á stuðningsmenn NYCFC, sérstaklega eftir að tilkynnt var á dögunum að Frank Lampard muni klára tímabilið í ensku úrvalsdeildinni með Englandsmeisturum Manchester City. Fréttavefmiðillinn Quartz greinir frá málinu.
Sviknir stuðningsmenn
Lampard hefur leikið fyrir Manchester City frá því í ágúst, en hann er að láni hjá liðinu frá NYCFC, sem hann samdi við eftir að farsælum ferli hans hjá enska úrvalsdeildarliðinu Chelsea lauk við lok síðasta tímabils. Lánssamningur Lampard átti að renna út um áramótin, og reiknað var með að hann héldi til Bandaríkjanna eftir að lánssamningurinn rynni út. Nú er ljóst að Lampard kemur hvergi fyrr en tímabilið í ensku úrvalsdeildinni er lokið, sem þýðir að hann missir af helming keppnistímabilsins í bandarísku úrvalsdeildinni. Ákvörðun eigenda NYCFC um að framlengja dvöl miðjumannsins hefur hleypt illu blóði í stuðningsmenn liðsins, og slegið töluvert á eftirvæntingu þeirra eftir að nýtt tímabil hefjist.
Stuðningsmenn NYCFC eru alls ekki sáttir við að Lampard skili sér ekki til Bandaríkjanna fyrr en eftir tímabilið í ensku úrvalsdeildinni.
Fjöldi stuðningsmanna NYCFC sem hefur fest kaup á ársmiða hjá liðinu, hefur krafist þess að fá miðana endurgreidda. Þá hefur knattspyrnuliðið verið harðlega gagnrýnt á Facebook síðu NYCFC sem og Twitter.
Grant Wahl, blaðamaður hjá hinu virta Sports Illustrated íþróttatímariti, sagði að eigendur NYCFC gætu allt eins sett upp plaköt á víð og dreif um New York borg af Lampard, Ferran Soriano, stjórnarformann Manchester City og Sheikh Mansour eiganda enska knattspyrnuliðsins, að senda stuðningsmönnum NYCFC fingurinn. Svo mikla óvirðingu hafi þeir í raun sýnt stuðningsmönnum liðsins.
Þá hefur nýstofnaður stuðningsmannaklúbbur NYCFC sömuleiðis fordæmt ákvörðunina og sagt að fyrirhuguð koma Lampard til New York hefði kveikt áhuga margra á liðinu. Í klúbbnum eru í dag um 1.500 meðlimir.
Viðbúið er að frestuð koma Lampard til borgarinnar sem aldrei sefur, mun sömuleiðis hafa fjárhagslegar afleiðingar. Íþróttavörubúðir eru byrjaðar að bjóða viðskiptavinum sínum, sem keyptu treyjur með nafni Lampard, endurgreiðslu. Ákvörðunin mun sömuleiðis kynda undir tilfinningu margra að skærustu stjörnur bandarísku úrvalsdeildarinnar vilji frekar vera einhvers staðar annars staðar. Ákvörðun eigenda NYCFC er að minnsta kosti túlkuð þannig að þeir telji Lampard, sem er 36 ára, of góðan leikmann til að senda til Bandaríkjanna.
Var Lampard svo aldrei í eigu NYCFC?
Þá hefur málið tekið enn einn furðulegan snúning til viðbótar. Þrátt fyrir að því hafi verið haldið fram í tilkynningu frá Manchester City að Lampard hafi verið lánaður til liðsins frá NYCFC, hefur komið á daginn að miðjumaðurinn skrifaði sjálfur undir stuttan samning við Englandsmeistaranna. Tilkynningin um lánssamninginn hefur þar að auki verið fjarlægð af heimasíðu enska úrvalsdeildarliðsins. Því lítur allt út fyrir að Lampard hafi aldrei verið leikmaður NYCFC í raun, og því alls óvíst hvort stuðningsmenn liðsins muni nokkurn tímann sjá hann klæðast treyju bandaríska liðsins.