Stuðningur við ríkisstjórnina eykst á milli skoðanakannanna hjá MMR, og mælist nú 36,4 prósent miðað við 33 prósent í síðustu könnun, sem lauk 4. nóvember síðastliðinn. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu MMR. Í lok október mældist stuðningur við ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 34,3 prósent. Spurt var: „Styður þú ríkisstjórnina?“ Svarmöguleikar voru „Já“, „Nei“ og „Veit ekki/Vil ekki svara.“ Samtals tóku 84,2 prósent aðspurðra afstöðu til spurningarinnar.
Könnunin var framkvæmd dagana 21. til 25. nóvember og var heildarfjöldi svarenda 1042 einstaklingar, átján ára og eldri.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst á milli kannanna og mælist nú 25,4 prósent borið saman við 23,6 prósent í síðustu könnun, sem lauk 4. nóvember. Fylgi Samfylkingarinnar eykst lítillega á sama tíma, mælist nú 16,5 prósent, miðað við 16,1 prósent í síðustu könnun. Fylgi Bjartrar framtíðar minnkar hins vegar töluvert á milli kannanna, mælist nú 15,5 prósent, samanborið við 18,6 prósent í fyrri könnun. Þá tapar Framsóknarflokkurinn fylgi, og mælist nú með 11,8 prósent, en flokkurinn mældist með 12,3 prósenta fylgi í síðustu könnun MMR. Vinstri græn mælast nú með 11,2 prósenta fylgi, miðað við 10,7 prósent í fyrri könnun, og fylgi Pírata mælist nú 10,6 prósent, miðað við 11,3 prósent í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist undir tveimur prósentum.