Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 25,4 prósent samkvæmt nýrri könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka og hefur minnkað um tvö prósentustig á einum mánuði. Á sama tíma hefur stuðningur við Framsóknarflokkinn aukist um rúmlega þrjú prósentustig og mælist hann nú næststærsti flokkurinn með 12,3 prósenta fylgi.
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur aukist um rúmt prósentustig á milli kannana og mælist nú 54,9 prósent.
Til viðbótar við Framsóknarflokkinn bætti Viðreisn einnig við sig fylgi frá síðustu könnun MMR, en flokkurinn mælist nú með 9,1 prósenta fylgi, sem er 1,3 prósentustigum hærri en fyrir mánuði síðan og 2,5 prósentustigum hærra en kjörfylgi flokksins.
Fylgi Samfylkingarinnar og Pírata lækkar hins vegar um tæpt prósentustig á milli kannana, en Píratar mælast nú með 12,2 prósenta fylgi og Samfylkingin með 10,6 prósenta fylgi. Samfylkingin, sem hefur lengi verið næststærsti stjórnmálaflokkurinn á þessu kjörtímabili, mælist nú sá fimmti stærsti. Fylgi Miðflokksins hefur einnig lækkað á sama tíma, úr 7,3 prósentum niður í 6,6 prósent.
Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn mælast báðir með rúmlega fimm prósenta fylgi og næðu því báðir inn á þing, en fylgi flokkanna hefur haldist óbreytt frá síðustu könnun. Fylgi Vinstri Grænna hreyfist einnig lítið á milli kannana, en flokkurinn mælist nú með 11,9 prósenta stuðning.