Fimm hundruð og sjötíu manna færanleg áhorfendastúka, sem meðal annars átti að nota á Smáþjóðaleikunum, kemst ekki til landsins frá Kína í tæka tíð. Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) pantaði stúkuna í marsmánuði til að eiga til taks og útleigu fyrir stærri íþróttaviðburði, en knattspyrnufélagið Fram átti að fá hluta hennar að láni vegna heimaleikja meistaraflokka liðsins í Úlfarsárdal.
Sextándu Smáþjóðaleikarnir, sem nú fara fram á Íslandi, verða formlega settir í næstu viku og munu standa dagana 1. til 6. júní næstkomandi. Til stóð að nota hluta stúkunnar við keppni í fimleikum í húsnæði Ármanns í Laugardalnum. Óskar Örn Guðbrandsson, verkefnastjóri Smáþjóðaleikanna hjá Íþrótta- og Ólympíusamandi Íslands, segir að brugðist hafi verið við stöðunni sem upp sé kominn, og seinkun stúkunnar muni ekki setja strik í reikninginn varðandi framkvæmd fimleikakeppninnar.
Framarar neyðst til að færa heimaleiki sína í Laugardalinn
Þá hafði knattspyrnufélaginu Fram verið lofað hluta stúkunnar, eða um fjögur hundruð sæti, fyrir heimaleiki liðsins í meistaraflokki, til að standast kröfur Knattspyrnusambands Íslands um aðstöðu áhorfenda. Vegna tafa við afhendingu stúkunnar hefur félagið neyðst til að flytja heimaleiki sína yfir á Laugardalsvöll. Sverrir Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, segir að vonir standi til að hluti stúkunnar verði kominn í gagnið fyrir heimaleik meistaraflokks karla í fyrstu deild, gegn HK, sem fram fer 2. júlí næstkomandi. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur dráttur á afhendingu stúkunnar valdið Frömurum töluverðum óþægindum.
Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri ÍBR, segir í samtali við Kjarnann að kostnaður við kaup og flutning stúkunnar hljóði upp á um ellefu milljónir króna. Hann harmar að stúkan hafi ekki komist til landsins í tæka tíð fyrir heimaleiki Fram, en til stóð að nota stúkuna á Smáþjóðaleikunum ámilli leikja liðsins. Hann segir að áætlað sé að stúkan komi til landsins þann 16. júní næstkomandi og svo muni starfsmaður frá fyrirtækinu í Kína koma til landsins í lok júnímánaðar til að leiðbeina um uppsetningu hennar.
Hann segir að stúkan hafi verið staðsett í Grikklandi þegar síðast fréttist, en rekja megi tafir á komu hennar til landsins meðal annars til tafa hjá framleiðslufyrirtækinu í Kína, sem og seinagangs hjá kínverskum tollayfirvöldum við að afgreiða hana úr landi.