Ekkert land í heiminum framleiðir jafn mikla raforku á mann og Íslandi og hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa af raforkuframleiðslu er óvíða hærra, eða nærri hundrað prósent. Engu að síður hefur beinn arður Íslendinga af raforkuframleiðslu verið rýr. Það sést best á því að langstærsti raforkuframleiðandi landsins, Landsvirkjun, hefur í 50 ár greitt um 15 milljarða króna í arð að núvirði.
Svona hljóma nýjustu markaðspunktarnir frá greiningardeild Arion banka. Niðurstaða greiningardeildarinnar á í sjálfu sér ekki að koma á óvart, enda löngu ljóst að byggðastefna hefur fyrst og fremst ráðið ríkjum við ákvarðanatöku stjórnvalda í virkjunar- og stóriðjumálum, fremur en viðskiptalegar forsendur. Auðvitað svíður að auðlindir landsins skili ekki nægilega miklu í þjóðarbúið, og þar eru orkuauðlindirnar engin undantekning, en það er gömul saga og ný.
Samkvæmt Arion banka eru ekki forsendur fyrir nýju álveri, þrátt fyrir einbeitan vilja Skagfirðinga um jafn gamaldags og úr sér gengna stóriðju. Þá kallar bankinn eftir meiri umræðu um lagningu sæstrengs, vegna fjölmargra áhættuþátta við verkefnið sem verði að kanna áður en hægt sé að fullyrða um hagkvæmni strengsins.
En lokaorð punkta Arion banka eru um margt áhugaverðir: „Þá er einnig mögulegt að hvorki sæstrengur né álver skili þjóðinni sem mestum ábata af orkuauðlindum okkar heldur eitthvað allt annað. Aðalatriðið er ekki einungis að verkefni standist ávöxtunarkröfu heldur einnig að þau skili sem mestri arðsemi til eigenda íslenskra orkufyrirtækja – þjóðarinnar. Áhugi á orkuauðlindum Íslendinga hefur vaxið samhliða miklum ferðamannstraumi sem gerir ósnorta náttúru vafalítið enn verðmætari en áður, svo taka þarf einnig tillit til þess.“
Einmitt, pælum aðeins í þessu.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.