Stundvísi flugfélaganna Icelandair og WOW air versnaði í júní samanborið við maí, samkvæmt athugun Dohop flugferða-leitarvélarinnar. Dohop hefur undanfarna mánuði tekið saman tölur um stundvísi þeirra flugfélaga sem fljúga mest frá Keflavík. Í júní var easyJet stundvísast við brottfarir en AirBerlin var stundvísast við komur. Brottförum og komum flugvéla WOW air seinkaði í nærri 40 prósent tilvika, að meðaltali um 32 mínútur í hvert skipti.
Flugfélag | Hlutfall brottfara á réttum tíma | Meðaltöf í mínútum | Hlutfall komu á réttum tíma | Meðaltöf í mínútum |
Icelandair | 73% (89%) | 12,09 (7,98) | 82% (88%) | 6,72 (9,44) |
WOW air | 62% (81%) | 31,76 (9,65) | 62% (74%) | 31,73 (15,179) |
easyJet | 74% (74%) | 8,29 (16,24) | 88% (85%) | 3,67 (11,56) |
AirBerlin | 68% | 11,38 | 94% | 2,26 |
Þegar tölurnar í júní eru bornar saman við stundvísi flugfélaganna í maí sést að hún versnar töluvert hjá bæði Icelandair og WOW air. Í töflunni hér að ofan eru tölur fyrir maí í sviga en nýjustu tölurnar, fyrir júní, standa utan sviga. Hlutfall brottfara á réttum tíma hjá Icelandair dróst saman úr 89 prósentum í 73 prósent. Meðaltöf í mínútum jókst úr tæpum átta mínútum í rúmlega tólf mínútur. Hlutfall komutíma versnaði einnig milli mánaða hjá Icelandair.
Meðaltöf hjá WOW air jókst mikið bæði við brottfarir og komur. Töfin var nærri 32 mínútur í hverju flugi WOW air í júní. Hlutfall brottfara og komu á réttum tíma í júní var 62 prósent í júní og lækkaði frá því að vera 81 prósent og 74 prósent í maí. Í tilkynningu frá DoHop segir að stórt hlutfall seinkana flugfélagsins hafi verið í fyrstu vikunni í júní, þegar vélarbilun og þrumuveður olli miklum töfum.
Stundvísi easyJet breyttist minna milli mánaða en hjá íslensku flugfélögunum. Meðaltöf í mínútum lækkaði við brottför og var um 8,3 mínútur í júní. Meðaltöf við komu var tæpar fjórar mínútur í júní.
AirBerlin mælist í fyrsta sinn í athugun DoHop en flugfélagið fór yfir 50 áætlunarflug til og frá Keflavík í mánuðinum. Meðaltöf á flugferðum félagsins var aðeins 2,3 mínútur við komu en 11,4 mínútur við brottför.
Örtröð í flugstöðinni
Ýmsar ástæður geta legið fyrir töfum á millilandaflugferðum flugfélaganna. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur það meðal annars áhrif á stundvísi íslensku flugfélaganna að bæði fara þau flestar ferðir allra flugfélaga um Keflavíkurflugvöllinn og flestar ferðanna eru á mestu álagstímum sólarhringsins. EasyJet, og fleiri af þeim erlendu flugfélögum nýlega hafa vanið komu sína til Keflavíkurfugvallar, hafa fengið úthlutaða tíma sem margir eru utan álagstíma.
Gríðarlegt álag á Keflavíkurflugvelli hefur verið nokkuð til umfjöllunar í sumar. Nærri 30 prósent fjölgun ferðamanna það sem af er ári, samanborið við fyrstu sex mánuði síðasta árs, hefur aukið álag á flugvellinum mikið. Álagstímar eru á morgnana og einkum á fimmtudögum og sunnudögum en að meðaltali fara um 22 þúsund manns um flugsstöð Leifs Eiríkssonar á sunnudögum í júlí. Það hefur komið fyrir á síðustu vikum að örtröð myndast við leitarhliðið og flugferðum hefur verið seinkað vegna þessa.