Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig, og upp í 5,75 prósent. Þar með hafa stýrivextir, sem ákvarða fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja, verið hækkaðir við síðustu níu vaxtaákvarðanir nefndarinnar, en þeir voru 0,75 prósent í maí í fyrra.
Hækkun stýrivaxta skilar sér í hækkun á afborgunum óverðtryggðra lána sem eru með breytilega vexti. Í nýjasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands kemur fram að um 28 prósent útistandandi fasteignalána eru óverðtryggð og með breytilegum vöxtum. Samanlögð upphæð þeirra eru á sjöunda hundrað milljarða króna. Vaxtabyrði slíkra lána hefur þegar hækkað verulega.
Í ritinu er nefnt að vegnir meðalvextir nýrra íbúðalána sem veitt voru af bönkunum í júlí 2021 voru 3,7 prósent en ári síðar voru þeir komnir upp í 6,6 prósent. Fyrir 40 milljóna króna óverðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára á breytilegum vöxtum felur slík vaxtahækkun í sér rúmlega 77 þúsund króna hækkun á mánaðarlegri greiðslubyrði eða sem samsvarar tæpum 48 prósent af upphaflegri greiðslubyrði lánsins.“
Óverðtryggðir vextir stóru bankanna þriggja, sem halda á 72 prósent af útistandandi íbúðarlánum, hafa ekki verið jafn háir og þeir eru nú síðan 2015.
Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum skipta máli
Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar segir að vísbendingar séu um að vaxtahækkanir undanfarin misseri hafi hægt á vexti almennrar eftirspurnar og umsvifum á húsnæðismarkaði. Verðbólga mældist 9,3 prósent í september og hefur hjaðnað um 0,6 prósentustig frá ágústfundi peningastefnunefndar. „Undirliggjandi verðbólga jókst hins vegar milli funda. Þá eru vísbendingar um að verðbólguvæntingar séu farnar að lækka á ný þótt þær séu enn yfir verðbólgumarkmiði bankans.“
Samkvæmt bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga var 6,8 prósent hagvöxtur á fyrri hluta þessa árs. „Eftirspurn á þriðja fjórðungi ársins virðist hafa verið kröftug en útlit er fyrir að heldur hægi á umsvifum eftir því sem líður á veturinn. Nýlegar vísbendingar af vinnumarkaði benda jafnframt til þess að spenna í þjóðarbúskapnum hafi náð hámarki. Þá hafa alþjóðlegar efnahagshorfur versnað og óvissa aukist sem kann að leiða til þess að hraðar dragi úr innlendri eftirspurn en áður var gert ráð fyrir.“
Peningastefnunefnd segir að hún muni áfram tryggja að taumhald peningastefnunnar sé nægjanlegt til að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. „Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um þróun vaxta á næstu misserum.“