Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að hækka stýrivexti bankans í 2,75 prósent í morgun. Um er að ræða hækkun á 0,75 prósentustigum frá því sem áður var og alls hafa vextir hækkað um tvö prósentustig frá því í mái í fyrra, þegar vaxtaákvörðunarferli Seðlabanka Íslands hófst.
Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í febrúarhefti Peningamála, sem kom út í dag var hagvöxtur um einu prósentustigi meiri á síðasta ári en spáð var í nóvember eða um 4,9 prósent. „Spáð er svipuðum hagvexti í ár. Störfum hefur haldið áfram að fjölga og atvinnuleysi að minnka og er áætlað að framleiðsluslakinn sem myndaðist í kjölfar COVID-19-farsóttarinnar sé horfinn. Óvissa er hins vegar enn mikil.“
Verðbólguhorfur hafa hins vegar versnað töluvert frá síðasta fundi nefndarinnar og mældist verðbólga 5,7 prósent í janúar. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig aukist og er talin vera ríflega fjögur prósent. Þá hafa verðbólguvæntingar á suma mælikvarða hækkað. „Hækkun húsnæðisverðs vegur þungt en aðrir innlendir kostnaðarliðir hafa einnig hækkað. Við bætist hækkun alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs. Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði 5,8 próent á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5 prósent fram eftir þessu ári. Gert er ráð fyrir að verðbólga hjaðni þegar hægir á verðhækkun húsnæðis og alþjóðlegar verðhækkanir fjara út en að hún verði ekki komin að markmiði fyrr en undir lok spátímans. Peningastefnunefnd ítrekar að hún mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.“
Reynt að hemja hækkun á íbúðaverði
Hækkun íbúðaverðs er megindrifkrafturinn i hærri verðbólgu, sem stýrivextirnir eiga að reyna að berja niður. Án þess væri verðbólgan 3,7 prósent en ekki 5,7 prósent.
Framboð af ódýrum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu er sérstaklega lítið. Fjöldi íbúða sem eru með ásett verð á bilinu 30-40 milljónir króna eru nú aðeins 26 talsins eða um tíu prósent af því sem þær voru í upphafi maí 2020. Þá var enn eitt metið slegið í desember þegar 39,6 prósent allra íbúða í landinu seldust yfir ásettu verði.
Eykur greiðslubyrði heimila
Í skýrslu HMS var fjallað um væntanlega vaxtahækkun, sem nú er orðin að veruleika, en greiningaraðilar væntu þess að vextir myndu hækka um 0,75 prósentustig. Í skýrslunni segir að greiðslubyrði óverðtryggðra lána gæti hækkað á næstunni vegna vaxtabreytinga. „Miðað við lægstu vexti á óverðtryggðum lánum hjá bönkunum er greiðslubyrði lána um 42 þ.kr. fyrir hverjar 10 m.kr. sem teknar eru að láni. Hækki stýrivextir um 0,5-0,75 prósentustig gæti greiðslubyrðin hækkað í 44-47 þ.kr. en það fer þó eftir því að hversu miklu leiti hækkun stýrivaxta skilar sér í hækkun vaxta á íbúðalánum. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána gæti því hækkað um allt að 18 þ.kr. á mánuði fyrir heimili sem er með 40 m.kr. íbúðalán.“
Alls var heildarumfang óverðtryggðra íbúðalána heimila hérlendis 1.130 milljarðar króna í lok september í fyrra. Alls 700 milljarðar króna af óverðtryggðum lánum voru með breytilega vexti, eða 62 prósent þeirra. Það þýðir að þegar Seðlabankinn hækkar stýrivexti, og lánalánveitendur hækka í kjölfarið íbúðalánavexti í takti við það, þá annað hvort hækka afborganir þeirra sem eru með slík lán umtalsvert eða sá hluti þeirra sem fer í að greiða vexti frekar en að greiða niður lánið dregst saman.