Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum áfram 0,75 prósent. Ákvörðunin er í takti við spár sem fram höfðu verið settar af markaðsaðilum síðustu daga, sem allar gerðu ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum.
Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að samkvæmt nýlega birtum þjóðhagsreikningum hafi samdráttur landsframleiðslu verið 6,6 prósent í fyrra en í febrúarspá sinni hafði Seðlabankinn gert ráð fyrir að hann yrði 7,7 prósent. „Efnahagsumsvif reyndust kröftugri en spáð hafði verið á síðasta fjórðungi ársins og samdrátturinn á fyrstu þremur fjórðungum ársins var nokkru minni en fyrri tölur bentu til. Nýlegar hátíðnivísbendingar og kannanir benda til áframhaldandi bata það sem af er þessu ári. Óvissan er hins vegar mikil og þróun efnahagsmála hér og erlendis mun að töluverðu leyti ráðast af framvindu farsóttarinnar og hversu vel bólusetning gegn henni gengur.“