Ríkisstjórnin kynnti í dag að hún ætlaði að ráðast í enn frekari aðgerðir til þess að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins.
Á meðal þess sem nú er kynnt eru fjögurra mánaða styrkir til fyrirtækja til þess að ráða fólk sem hefur verið á hlutabótum aftur í sama starfshlutfall og það var í. Einnig sérstakir styrkir til þeirra sem hafa verið atvinnulausir í 14 mánuði samfellt um komandi mánaðamót. Þeir eiga geta numið allt að 100 þúsund krónum.
Sum úrræðin eru ný, eins og þau tvö sem hér eru áður nefnd, en önnur er verið að framlengja. Til dæmis verður réttur til greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði í stað þriggja framlengdur til 1. febrúar 2022.
Einnig verður greiddur út sérstakur 30 þúsund króna barnabótaauki með hverju barni við álagningu opinberra gjalda í lok maí 2021.
Þær munu þó ekki fara út til foreldra óháð tekjum eins og sérstakar barnabætur sem voru greiddar út vegna COVID-aðgerða stjórnvalda síðasta vor, heldur rennur barnabótaaukinn einungis til þeirra sem fá greiddar tekjutengdar barnabætur.
Bjarni segir að kostnaðurinn komi til baka
Er Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var beðinn um að verðmeta heildarkostnað við aðgerðirnar, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, sagði hann ljóst að heildarumfangið næmi milljörðum króna en nefndi þó enga ákveðna tölu.
„Við erum að setja krónur út til heimilanna og til fyrirtækjanna til að hagkerfið allt verði í sterkari stöðu og fái viðspyrnu. Þannig fáum við þetta allt til baka. Valkosturinn að gera ekki neitt er ekki í boði, hann hefði kostað meira. Þetta er góð fjárfesting í hagkerfinu okkar,“ sagði fjármálaráðherra við RÚV.
Lokunarstyrkir og viðspyrnustyrkir framlengdir og stækkaðir
Til stendur að framlengja lokunarstyrki út árið 2021 og hækka hámarksfjárhæð þeirra. Einnig stendur til að viðspyrnustyrkjaúrræðið verði framlengt út nóvember 2021 og ný tekjufallsviðmið verði búin til, fyrir fyrirtæki sem eru með tekjufall sem nemur 40-60 prósentum. Í dag þarf tekjufall að vera yfir 60 prósent m.v. fyrra ár til að fyrirtæki geti fengið viðspyrnustyrki.
Fyrir þau fyrirtæki sem eru með 40-60 prósent tekjufall verður mánaðarlegur viðspyrnustyrkur á hvert stöðugildir 300 þúsund krónur á mánuði. Mánaðarlegir styrkir eiga áfram að nema 400 þúsund krónum á stöðugildi fyrir tekjufall á bilinu 60-80 prósent og 500 þúsund krónum í tilfelli 80-100 prósent tekjufalls.
Þessi breyting, sem verður í væntanlegu frumvarpi fjármála- og efnahagsherra, á að gilda um tímabilið nóvember 2020 og út nóvember 2021.
Einnig er lagt til að hámark styrks verði 260 milljónir króna og það verði „sameiginlegt hámark fyrir lokunarstyrki frá september 2020, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og ferðagjafir.“
Hægt að dreifa frestuðum skattgreiðslum á allt að fjögur ár
Í samantekt á vef stjórnarráðsins um boðaðar aðgerðir kemur einnig fram að fjármála- og efnhagsráðherra sé þegar búinn að birta reglugerð sem heimilar lánastofnunum að hliðra endurgreiðslutíma stuðningslána í allt að 12 mánuði til viðbótar.
Einnig stendur til að framlengja frest fyrirtækja til þess að greiða staðgreiðslu og tryggingagjald ársins 2020, en fyrirtækjum var í fyrra boðið að fresta slíkum greiðslum til þessa árs.
Fyrirtæki sem eru með gjalddaga í júní, júlí og ágúst 2021 eiga nú bráðum að geta sótt um að dreifa þeim greiðslum niður í allt að 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur með fyrsta gjalddaga 1. júlí 2022. Því verður hægt að borga skattinn fyrir árið 2020 með afborgunum fram á mitt ár 2026.
Ný ferðagjöf og 6 prósent álag á grunnframfærslu sumra námsmanna
Á meðal þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin kynnir í dag kennir ýmissa grasa. Meðal annars á að gefa landsmönnum aðra ferðagjöf. Hún á að vera með sama sniði og í fyrra og skapa hvata til þess að fólk nýti sér innlenda ferðaþjónustu.
Einnig verður 600 milljónum króna veitt til geðheilbrigðismála fyrir börn og ungmenni til að mæta aukinni þörf sem sögð er til staðar í þeim málaflokki vegna COVID-19.
Þá er boðaður stuðningur við námsmenn, sem munu geta sótt um viðbótarlán fyrir skólaárið 2021-2022 sem á að geta numið 6 prósent álagi ofan á grunnframfærslu námsmanna, ef þeir eru með áætlaðar tekjur undir heimiluðu frítekjumarki, sem hljóðar upp á er 1.410.000 kr. árstekjur.
Einnig geta námsmenn fengið sambærileg sumarlán frá Menntasjóði námsmanna í ár og eins og í fyrra, en þá var lánað niður í allt að 1 ECTS-einingu. Einnig verður áfram gert ráð fyrir því að námsmenn sem sækja um námslán og koma beint af vinnumarkaði fái fimmfalt frítekjumark til lækkunar á launatekjum, sem annars hefðu skert lánið.
Ríkisstjórnin segir að markmið aðgerðanna sem kynntar eru í dag sé að „styðja áfram við heimili og fyrirtæki á lokametrum baráttunnar við heimsfaraldurinn.“