Þrjú stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins, Árvakur, Sýn og Torg fá hvert um sig tæplega 66,8 milljónir króna í rekstrarstuðning úr ríkissjóði í ár. Alls var 381 milljón króna úthlutað af sérstakri úthlutunarnefnd sem skipuð er af Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, og því fór tæplega 53 prósent heildarupphæðarinnar sem úthlutað var í rekstrarstyrki til fjölmiðla til þeirra.
Upphæðin sem stóru fjölmiðlafyrirtækin þrjú fengu samtals lækkaði um 44 milljónir króna frá því í fyrra þegar þau fengu 62 prósent úthlutaðra styrkja, eða um 14,7 milljónir króna hjá hverju þeirra. Ástæður þessa eru þær að heildarpotturinn sem úthlutað var úr lækkaði um átta milljónir króna milli ára, fleiri fjölmiðlafyrirtæki sóttu um stuðningsgreiðslur nú en í fyrra og sumir aðilar fengu hærri greiðslur nú en áður.
Í ár bárust 28 umsóknir um styrk en þremur þeirrra var synjað þar sem þær uppfylltu ekki öll skilyrði fyrir rekstrarstuðningi. Því fengu 25 fyrirtæki rekstrarstuðning en í fyrra voru þau 21 talsins.
Bændasamtökin bæta við sig 4,4 milljónum króna
Sá aðili sem eykur rekstrarstuðning sinn mest milli ára eru Bændasamtök Íslands, sem eru ekki atvinnugreinaflokkuð sem útgáfustarfsemi heldur sem hagsmunasamtök. Rekstrarstuðningurinn er vegna útgáfu Bændablaðsins og nemur 16,8 milljónum króna nú, sem er 4,4 milljónum krónum meira en Bændasamtökin fengu í greiðslur í fyrra.
Ritstjórn Bændablaðsins heyrir undir útgáfu- og kynningarsvið Bændasamtaka Íslands. Á heimasíðu Bændasamtakanna segir að hlutverk þeirra sé að vera „málsvari bænda og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna“. Meginmarkmið þeirra sé að „beita sér fyrir bættri afkomu bænda, betri rekstrarskilyrðum í landbúnaði auk þess að miðla upplýsingum og sinna fræðslu til sinna félagsmanna.“
Bændablaðið er sent endurgjaldslaust á öll lögbýli á Íslandi.
Norðlenska fjölmiðlafyrirtækið N4, sem er meðal annars í eigu KEA, Kaupfélags Skagfirðinga og Síldarvinnslunnar, fær nú 20,7 milljónir króna í styrki eða 1,3 milljónum krónum meira en fyrirtækið fékk í fyrra.
Greiðslur til ýmissa fréttamiðla lækka
Rekstrarstuðningurinn getur að hámarki verið 25 prósent af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjenda sem uppfylla ýmis skilyrði sem sett eru fyrir því að fá greitt úr pottinum. Sé sótt um hærri upphæð en búið er að gera ráð fyrir að ráðstafa skerðist hlutfallið af rekstrarkostnaði sem fæst greitt hjá hverjum og einum umsækjanda. Í þau skipti sem greiðslunum hefur verið úthlutað þá hefur ætið verið sótt um mun hærri upphæð en er til skiptanna.
Sá kostnaður sem er stuðningshæfur er kostnaður við rekstur ritstjórnar.
Kjarninn miðlar, útgáfufélag Kjarnans, jók launakostnað í fyrra um 35 prósent og fjölgaði ársverkum úr 6,2 í 9,3 á árinu 2021. Nær öll þessi aukning var vegna fjölgunar á ritstjórn miðilsins. Rekstrarstuðningurinn í ár er þó nánast nákvæmlega sá sami í ár og hann var í fyrra, eða 14,5 milljónir króna.
Önnur fjölmiðlafyrirtæki en þau sem nefnd hafa verið hér að ofan sem fengu yfir tíu milljónir króna í rekstrarstyrk eru Myllusetur, útgáfufélag Viðskiptablaðsins og tengdra miðla, sem fær 25 milljónir króna, eða 1,8 milljónum krónum minna en í fyrra, og útgáfufélag Stundarinnar, sem fær 22,3 milljónir króna, eða þremur milljónum minna en í fyrra.
Kjarninn er eitt þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem nýtur opinbers rekstrarstuðnings.