Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, lést á heimili sínu í gær, 83 ára að aldri. Greint er frá andláti hans í Morgunblaðinu í dag. Styrmir hafði verið að glíma við afleiðingar heilaslags sem hann fékk fyrr á þessu ári.
Styrmir var menntaður lögfræðingur frá Háskóla Íslands og lauk embættisprófi frá skólanum árið 1965. Hann starfaði hins vegar mestalla starfsævi sína sem blaðamaður og síðar ritstjóri á Morgunblaðinu, en þar hóf hann störf árið 1965 eftir að hafa skrifað í blaðið að staðaldri utan ritstjórnar í nokkur ár þar á undan.
Í frétt Morgunblaðsins af andláti Styrmis segir að hann hafi strax og hann hóf störf sumarið 1965 byrjað að fást við ritstjórnarskrif í Staksteina og forystugreinar blaðsins.
Hann varð síðan aðstoðarritstjóri árið 1971 og ritstjóri 1972, ásamt þeim Matthíasi Johannessen og Eyjólfi Konráði Jónssyni.
Á ritstjórastóli Morgunblaðsins sat Styrmir síðan óslitið allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir þann 2. júní árið 2008, en þá stóð Styrmir á sjötugu. Þá hafði hann starfað 43 ár á blaðinu. Seinustu sjö árin í starfi ritstýrði hann blaðinu einn, eftir að Matthías Johannessen lét af störfum.
Styrmir hélt áfram virkri þátttöku í samfélagsumræðunni eftir að hann lét af störfum á Morgunblaðinu og eftir hann liggja nokkrar bækur, flestar um íslensk þjóðfélagsmál.
Hann hefur undanfarin misseri ritað reglulega dálka í Morgunblaðið. Sá síðasti birtist í dag – og segir í frétt Morgunblaðsins að það hafi verið eitt af hinstu verkum Styrmis að senda hann inn til birtingar.