Park Geun-hy, forseti Suður-Kóreu, krefst þess að Norður-Kóreumenn biðjist afsökunar á jarðsprengjum sem særðu tvo hermenn á hlutlausa svæðinu milli ríkjanna fyrr í mánuðinum. Fyrr muni Suður-Kórea ekki hætta að útvarpa á svæðinu, eins og Norður-Kóreumenn hafa krafist.
Háttsettir ráðgjafar stjórnvalda beggja ríkja hafa fundað stíft vegna ástandsins um helgina, og viðræður hófust á ný í morgun. Engin niðurstaða hefur fengist af þessum fundahöldum.
Spennan á milli ríkjanna á Kóreuskaganum hefur magnast undanfarna daga og Norður-Kóreumenn hafa hótað því að ráðast í miklar hernaðarlegar aðgerðir ef Suður-Kóreumenn hætta ekki að útvarpa í gegnum hátalara á landamærunum. Suður-Kóreumenn hafa brugðist við þeim hótunum með því að flytja fjögur þúsund íbúa í nágrenninu frá landamærunum og vara við því að ef Norður-Kóreumenn grípi til einhverra aðgerða verði þeim svarað af fullri hörku.
Upphaf spennunnar nú er sú að tveir suður-kóreskir hermenn slösuðust alvarlega af völdum jarðsprengja. Stjórnvöld í Suður-Kóreu segja að Norður-Kóreumenn hafi komið sprengjunum þar fyrir, en því hafna Norður-Kóreumenn og segja það fráleitt. Í kjölfar þessa hófu hermenn að skjóta, en herbúðir beggja segja að hinir hafi skotið fyrst. Í kjölfar sprenginganna hófu Suður-Kóreumenn að hefja á ný notkun hátalaranna á svæðinu, sem höfðu verið hljóðir í ellefu ár fram að því. Útvarpað er fréttum, veðurspá og tónlist frá Suður-Kóreu á svæðinu.
Mörgum þykir það vera góðs viti að viðræður séu enn í gangi. Venjulega standi viðræður milli ríkjanna ekki lengi og það gæti verið merki um að verið sé að ræða lausnir á stærri málum en því að koma á tímabundnu vopnahléi.