Drífa Snædal telur það sjálfsagt og eðlilegt að Íslendingar fái upplýsingar um tekjur fólks og ekki síst framlag til samfélagsins og þeirra kerfa sem „við treystum öll á og gætum ekki lifað án“. Þetta kemur fram í vikulegum pistli Drífu í dag en tekjublöð Frjálsrar verslunar og DV komu út í vikunni.
Það sem veki athygli að þessu sinni umfram annað séu laun forstjóra og yfirmanna hjá þeim fyrirtækjum sem hafa fengið hvað hæstu ríkisstyrkina til að viðhalda ráðningasamböndum, fengið tekjufallsstyrki, uppsagnarstyrki og niðurgreidd laun til að ráða fólk aftur til starfa.
Segir hún að þegar fólk, sem hefur verið svipt atvinnuöryggi sínu til lengri tíma og tekið skellinn á þeim forsendum að „við séum öll á sama báti“, les tekjublaðið sitji eftir sú eðlilega tilfinning að „sumt fólk tók skellinn á meðan aðrir mökuðu krókinn“.
„Öll viðbrögð við umræðum um að nú þurfum við öll að leggjast á árarnar í atvinnulífinu litast af þeirri staðreynd að við erum einmitt ekki öll á sama báti. Sett er krafa á láglaunafólk um að sýna atvinnurekendum tryggð með því mæta aftur til erfiðra starfa um leið og kallið kemur og sama hvaðan sem það kemur. Viðbrögðin hljóta þó að litast af tryggð þess sama atvinnulífs eða vinnustaðar við starfsfólk á erfiðum tímum,“ skrifar hún.
Kjarninn greindi frá því í vikunni að tíu tekjuhæstu forstjórarnir hefðu samtals verið með 176,9 milljónir í tekjur á mánuði árið 2020 og hefðu átta af þeim verið með yfir 12 milljónir. Tuttugu forstjórar voru með yfir sex milljónir.