Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður Vinstri grænna sem hætti á þingi í fyrra eftir 38 ára þingsetu, verður formaður svokallaðs spretthóps sem flokkssystir hans, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur skipað. Hópnum er ætlað að skila Svandísi tillögum og valkostagreiningu vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi sökum þess að verð á aðföngum til bænda hefur hækkað gríðarlega eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Hópurinn kallast spretthópur vegna þess að hann á að skila af sér fyrir 13. júní næstkomandi, eða eftir tíu daga. Kynna á niðurstöðu vinnu hans fyrir ríkisstjórn á fundi hennar daginn eftir, eða 14. júní.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins vegna þessa segir að litlar líkur séu á því að þær miklu hækkanir sem orðið hafa á helstu aðföngum matvælaframleiðenda vegna stríðsins muni ganga til baka á næstum mánuðum og jafnvel misserum. „Þessi þróun mun, að öllu óbreyttu, kippa stoðum undan rekstri bænda m.a. flestra sauðfjár- og nautgripabúa. Þannig kunni framboð á innlendri vöru að dragast verulega saman næstu misseri með tilheyrandi áhrifum á fæðuöryggi. Það liggur fyrir að áhrif innrásarinnar í Úkraínu verða langvinn og því ljóst taka verður stöðuna alvarlega.“