Virði 300 stærstu fyrirtækjanna í Evrópu á markaði hefur lækkað um 400 milljarða evra það sem af er degi, samkvæmt gögnum Reuters fréttastofunnar. Hlutabréf í Evrópu hafa hríðfallið í dag, rétt eins og gerðist í Asíu, en hlutabréfaverð lækkaði um rúm átta prósent í Kína og hafa ekki lækkað meira síðan 2007. Beðið er eftir opnun bandarískra markaða, og búist er við miklum lækkunum þar líka.
FTSeurofirst300 vísitalan yfir 300 stærstu fyrirtækin í Evrópu hefur hrapað niður, um 4,5 prósent, og útlit er fyrir mestu lækkun á einum degi frá því í mars árið 2009. Stoxx 600 vísitalan, sem inniheldur líka minni evrópsk fyrirtæki, hefur lækkað enn meira, eða um rúmlega fimm prósent. Þar er útlit fyrir mestu lækkun frá árinu 2008.
Þá hefur verðbréfaeftirlitið í Bandaríkjunum neyðst til að loka fyrir viðskipti á afleiðumarkaði með hlutabréf í Nasdaq kauphöllinni, og það áður en markaðir opna þar í landi. Í viðskiptum fyrir opnun Bandaríkjamarkaða lækkuðu hlutabréf um fimm prósenta, sem er hámarkið samkvæmt reglum Wall Street.
Shangai Composite - 8.5% Nikkei - 4.6% Euro Stoxx -5% Dow Jones Futures - 667 points Welcome back from holidays!
— Maxime Sbaihi (@MxSba) August 24, 2015
FTSE100 vísitalan hafði lækkað um 4,5 prósent, og virði þeirra 100 fyrirtækja sem eru inni í vísitölunni hafði lækkað um 60 milljarða evra. Þetta er í fyrsta sinn frá því í byrjun 2013 sem vísitalan fer undir 6000 stig, en hún stendur nú í 5.914 stigum. Þýska Dax-vísitalan féll um fimm prósent og franska CAC-vísitalan um tæplega fimm prósent.