Óprúttinn aðili millifærði 1.2 milljónir Bandaríkjadala, eða rúma 161 milljón íslenskra króna, af bankareikningum vogunarsjóðsins Fortelus Management LLP, eftir að hann náði að plata fjármálastjóra sjóðsins til að gefa sér upp öryggiskóða í gegnum síma. Fréttamiðillinn Bloomberg greinir frá málinu.
Þjófurinn hringdi seint á föstudagssíðdegi í vogunarsjóðinn, eða rétt fyrir lokun skrifstofunnar, og kvaðst vera starfsmaður bankans Coutts, sem er viðskiptabanki sjóðsins. Hann fullyrti við fjármálastjórann að grunnsamlegar millifærslur hefðu átt sér stað á reikningum sjóðsins, og hann þyrfti öryggiskóða þeirra til að afturkalla millifærslurnar.
Fjármálastjórinn notaði einhvers konar auðkenniskort til að kalla fram öryggiskóða sem hann lét svo símaþjófinn hafa í góðri trú. Þegar hann mætti svo til vinnu á mánudagsmorgun sá hann sér til mikillar skelfingar hvar hátt í 200 milljónir króna höfðu horfið af reikningum vogunarsjóðsins. Þá var áðurnefnt símatal hvergi skrásett hjá Coutts bankanum. Fjármálastjórinn hafði verið gabbaður.
Hann var síðar rekinn frá vogunarsjóðnum sem hefur stefnt honum fyrir afglöp í starfi. Fjármálastjórinn neitar ásökunum um vanræsklu og ítrekar að hann hafi veitt áðurnefndar upplýsingar í góðri trú og ekki í glæpsamlegum tilgangi.
Atvikið þykir sýna að jafnvel háþróuðustu öryggiskerfi koma ekki í veg fyrir mannleg mistök og að fyrirtæki leggi ef til vill of mikla áherslu á að vera sem best tækjum búin frekar en að einbeita sér að því að þjálfa starfsmenn sína til að bregðast við tilraunum glæpamanna.
Þá er víst alvanalegt að glæpamenn nýti sér föstudaga til að hringja í fjármálafyrirtæki eða lögmannsskrifstofur og reyni að villa á sér heimildir sem bankastarfsmenn.