Sjónvarpsmaðurinn Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, hefur látið af störfum hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365. Fjölmiðlasamsteypan sagði Sveppa upp störfum í lok sumars, en hann hefur starfað hjá 365 síðan árið 2002. „Við skiljum í góðu, enda hefur sambandið okkar verið afar gott í gegnum tíðina,“ segir Sveppi í gamansömum tón í samtali við Kjarnann.
Sveppi var kynnir á nýafstöðnum hlustendaverðlaunum FM957 ásamt leikkonunni Sögu Garðarsdóttur, en einhverra hluta vegna hefur lítið sést til hans í dagskrá 365 á undanförnum mánuðum. „Þó ég sé ekki lengur á föstum launum hjá 365, þá verð ég vonandi áfram ráðinn í tímabundin verkefni hjá fyrirtækinu. Nú tekur bara eitthvað annað við, en það er ekki þar með sagt að ég birtist ekki aftur á Stöð 2 í framtíðinni, enda skoðar maður allar hugmyndir með opnum huga og þá er sama hvort þær koma frá Stöð 2 eða ÍNN, það er aukaatriði.“
Með mörg járn í eldinum
Sveppi kveðst hafa mörg verkefni á takteinunum. Hann hyggur á sjónvarpsþáttaframleiðslu og kvikmyndagerð og er á leiðinni til Úganda. „Við erum að fara saman til Afríku nokkrar íslenskar fjölskyldur, sem þátttakendur í hjálparstarfi undir yfirskriftinni Act of Kindness. Við Bragi, sem hefur leikstýrt Sveppa-myndunum, ætlum í leiðinni að taka upp litla heimildamynd um upplifun íslensku krakkanna af heimsókninni til Úganda.“