Svíar ætla ekki að framlengja umdeildan vopnasamning við Sádi-Arabíu. Sænskir fjölmiðlar greina frá þessu og segja tilkynningar að vænta frá ríkisstjórninni nú seinni partinn.
Útflutningur vopna frá Svíþjóð til Sádi-Arabíu er mjög umdeildur í Svíþjóð og hefur verið mikið í umræðunni undanfarið, eins og Kjarninn fór yfir um helgina. Ríkisstjórn Jafnaðarmanna gerði leynilegan samning um vopnaverksmiðju í landinu árið 2005, og samningurinn var svo endurnýjaður af nýrri ríkisstjórn árið 2010. Það var ekki fyrr en árið 2012 sem upp komst um samninginn, þegar sænska ríkisútvarpið greindi frá honum. Í kjölfarið vöknuðu spurningar um það hvernig réttlæta megi slíkan samning við land sem ítrekað hefur verið staðið að grófum mannréttindabrotum.
Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sagði frá því í gær að henni hefði verið meinað að halda ávarp á fundi Arababandalagsins í Kaíró, þar sem hún var þó heiðursgestur. Hún segir að hún hafi verið stöðvuð vegna viðhorfa hennar til og ummæla um mannréttindabrot Sádi-Arabíu. Staðfest hefur verið við fjölmiðla að hætt var við að hún héldi opnunarávarp á fundi bandalagsins.
Utanríkisráðherrar ríkja Arababandalagsins hafa í kjölfarið gagnrýnt hana harðlega og sagt að yfirlýsingar hennar um mannréttindabrot eigi ekki við rök að styðjast.