Tveir hagfræðingar, sem Þjóðhagsráð fékk til þess að vinna greinargerðir um stöðu og horfur á vinnumarkaði núna í aðdraganda kjarasamninga, komust að þeirri niðurstöðu að um þessar mundir sé svigrúm í hagkerfinu til nafnlaunahækkana „takmarkað“ eða jafnvel „á þrotum“, ef tryggja eigi að kaupmáttur launanna sem landsmenn fá í vasann haldi sér.
Greinargerðir þeirra Katrínar Ólafsdóttur dósents í hagfræði við HR og Arnórs Sighvatssonar hagfræðings voru birtar á vef stjórnarráðsins í dag, samhliða tilkynningu um starfsemi Þjóðhagsráðs á árinu.
Ætti ekki að gefa hugmyndafræði norræna líkansins upp á bátinn
Katrín segir í skýrslu sinni að hætt sé við að nafnlaunahækkanir í þeirri kjarasamningalotu sem stendur fyrir dyrum fari „að mestu út í verðlag“ í því flókna efnahagsástandi sem nú blasi við. „Því er æskilegast í þessari samningalotu að leita leiða til að tryggja kaupmátt þeirra sem verst standa á vinnumarkaði fremur en að leggja áherslu á nafnlaunahækkanir,“ skrifar hún í inngangi greinargerðar sinnar, en í skýrslunni kemur fram það mat Katrínar að einna mikilvægast sé að „setja ramma utan um samningaviðræðurnar svo að ekki hefjist nýtt höfrungahlaup í næstu samningum“.
„Þótt ekki hafi tekist að finna leið til að taka upp einhverja útgáfu af norræna líkaninu í gegnum Salek-samstarfið ætti ekki að gefa það upp á bátinn að hugmyndafræði norræna líkansins verði gefið meira pláss í kjarasamningum framtíðarinnar,“ segir Katrín í skýrslu sinni.
Auk þess bendir hún á að leggja mætti áherslu á einstök atriði við kjarasamningsgerðina sem lúta að öðru en beinum launahækkunum.
Þar lítur Katrín meðal annars til áhrifa styttri vinnuviku, brúunar umönnunartímabilsins frá fæðingarorlofi til leikskóla, hugmynda um að setja þak á yfirvinnugreiðslur og tryggja að tímabundnum vinnutoppum sé mætt með því að yfirvinna gefi aukinn frítíma, aðgerðir sem tengjast kulnun og endurkomu á vinnumarkað, sí- og endurmenntun, framhald fjarvinnu eftir COVID-faraldurinn og sérstaks átaks til að jafna launamun kynjanna.
Þá nefnir Katrín einnig að bæta mætti eftirlit með fákeppnisfyrirtækjum og efla Samkeppniseftirlitið, þar sem fyrirtæki í fákeppni hafi meiri möguleika á að mynda hagnað en þau sem eru í samkeppni. Ástæða sé til að „hafa eftirlit með þessum fyrirtækjum svo að þau nýti ekki stöðu sína á markaði til að auka hagnað og tryggja að aukin skilvirkni í rekstri skili sér til neytenda“.
„Það gæti orðið öllum neytendum í hag að bæta almennt eftirlit með fyrirtækjum í fákeppni, ekki síst þeim sem eru á mörkuðum þar sem stórum hluta tekna einstaklinga er varið, t.d. dagvörufyrirtækjum, bensínfyrirtækjum, bönkum og tryggingafyrirtækjum,“ segir Katrín í skýrslu sinni.
Þar nefnir hún einnig að bæta mætti stöðu einstakra hópa, til dæmis þeirra sem eru undir lágtekjumörkum og leigjendum á húsnæðismarkaði sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað.
Óvissa önnur og meiri en oftast áður
Í skýrslunni fer Katrín yfir það að nú sé verið að fara í kjaraviðræður við mikla óvissu.
„Framtíðin er alltaf óviss, en óvissan nú er önnur og meiri en oftast áður. Það dregur úr hagvexti í heimsbúskapnum og þótt stríðið í Úkraínu hafi minni áhrif hér á landi en víða annars staðar er útlit fyrir að þau verði nokkuð langvinn. Áhrifa Covid-19 mun einnig gæta áfram. Fleiri afbrigði veirunnar gætu skotið upp kollinum. Á alþjóðamarkaði hafa líkur aukist á skorti á eldsneyti og einstökum matvælum og sumir spá hungursneyð meðal þeirra er veikast standa. Sérfræðingar eru langt frá því að vera sammála um hvernig skuli bregðast við aðstæðum. Alþjóðlegar verðbólguspár hafa hækkað mikið síðustu mánuði og hagvaxtarspár lækkað. Líkur á skarpri niðursveiflu hafa aukist til muna, þótt fáir séu enn tilbúnir að spá slíku. Það er mikilvægara en oft áður að fjármálastjórn og peningamálastjórn styðji hvor aðra og stefni að sama markmiði í þeirri erfiðu stöðu sem uppi er í þjóðarbúskapnum. Þá er mikilvægt að hagstjórn bregðist skjótt og vel við breyttum aðstæðum, en búast má við breytingum á næstu misserum. Jafnframt samvinna við aðila vinnumarkaðarins að vera góð til að tryggja raunverulega kjarabót í næstu kjarasamningum í stað þess að samið verði um háar nafnlaunahækkanir sem fara beint út í verðlag og úr verði gamalkunnar víxlhækkanir verðlags og launa,“ segir í skýrslu Katrínar.
Óvenjulegar hagstæðar aðstæður síðasta áratugar ekki lengur fyrir hendi
Arnór Sighvatsson, sem er fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóri, fjallar í greinargerð sinni um „margbrotið samspil vinnumarkaðar, hagkerfis og hagstjórnar á Íslandi sem veldur því að erfitt getur reynst að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði og öðrum sviðum þjóðarbúskaparins“.
Hann segir um að mat á vexti framleiðni, sem svigrúm til launahækkana er gjarnan metið út frá, sé háð mikilli óvissu, einkum þegar tekið sé mið af nýlegum gögnum. Þannig geti mælingar á landsframleiðslu t.d. tekið umtalsverðum breytingum í áratug eftir að fyrstu áætlanir birtast, auk þess sem mat á heildarvinnustundum sé mikilli óvissu háð. Því segir hann að það „virðist skynsamlegt að horfa yfir langt tímabil fremur en nýlegar breytingar þegar lagt er mat á svigrúm til launabreytinga, með fyrirvara um að langtímaleitni getur verið í vexti framleiðni“.
Undir lok greinargerðar sinnar svarar hann þeirri spurningu sem Þjóðhagsráð lagði fyrir, um sjálft svigrúmið, og segir að árin eftir fjármálahrunið 2008 hafi myndast „ákveðið svigrúm fyrir launabreytingar eftir að hlutfall launa af verðmætasköpun lækkaði verulega í kjölfar kreppunnar.“
En nú segir hann að önnur mynd blasi við:
„Á undanförnum árum hefur launahlutfallið verið að færast upp í eða yfir langtímameðaltal. Verulegur afgangur hafði myndast á viðskiptum við útlönd sem nú hefur a.m.k. tímabundið snúist í halla. Ferðamannabylgjan og viðskiptakjarabati leiddi til gengishækkunar sem ásamt lítilli alþjóðlegri verðbólgu varð til þess að laun gátu hækkað verulega án þess að það hefði sýnileg áhrif á innlenda verðbólgu. Þetta svigrúm er nú á þrotum og erlendir kostnaðarliðið sem áður lækkuðu til mótvægis við aukinn innlendan kostnað eru nú sjálfstæður verðbólguvaldur. Launabreytingar sem samið verður um í næstu kjarasamningum þyrftu að taka mið af því að hinar óvenjulegu hagstæðu aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi. Verði það gert má binda vonir við að hægt verði að varðveita bæði ytra og innra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og verja kaupmátt þeirra kjarasamninga sem undirritaðir verða,“ skrifar Arnór.