Saksóknarar í Sviss hafa nú til rannsóknar 53 aðskilin mál þar sem grunur er uppi um peningaþvætti sem tengist FIFA. Svissneskir bankar létu yfirvöld vita af því að mögulega væri verið að brjóta lögin með umfangsmiklum ólögmtum fjármagnshreyfingum.
Michael Lauber saksóknari, segir í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC, svissneskir bankar hafi látið yfirvöldum í té mikið magn gagna sem benda til umfangsmikilla fjármagnshreyfingar þar sem mútur og peningaþvætti geta hafa verið undir.
Nú þegar hafa yfirvöld í Bandaríkjunum ákært fjórtán fyrrum hátt setta yfirmenn hjá FIFA vegna spillingar og mútugreiðslna.
Rannsóknir yfirvalda, bæði í Sviss og Bandaríkjunum, hafa meðal annars tengst því hvernig staðið var að því velja staði fyrir HM árið 2018 og 2022, sem fara fram í Rússlandi og Katar.
Lauber segir að nú þegar séu til rannsóknar 104 fjármagnsfærslur, sem séu flóknar og tengist oft mörgum bönkum og reikningum. Erfitt sé að segja til um hversu lengi rannsókn mun standa yfir, áður en ákvörðun um saksókn verður tekin, en ljóst sé þó að þetta sé tímafrek vinna.