Svíþjóð og Ekvador munu hefja viðræður vegna Julians Assange, forsprakka Wikileaks, á næstunni. Viðræðurnar hefjast á mánudag.
Svíar höfnuðu því upphaflega að ríkin tvö myndu komast að samkomulagi áður en sænskir saksóknarar fengju að yfirheyra Assange í sendiráði Ekvadors í London, þar sem hann hefur dvalið undanfarin ár. Svíar sögðust ekki standa í slíkum tvíhliða samningum.
En Guardian greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst milli ríkjanna um að hefja viðræður vegna pattstöðunnar í máli hans. Tvær konur kærðu hann fyrir kynferðisbrot í Stokkhólmi fyrir fimm árum síðan. Í kjölfarið leitaði Assange skjóls í sendiráðinu í London og segist ekki hafa átt annarra kosta völ, vegna þess að stjórnvöld í Svíþjóð hafi ekki getað lofað að hann yrði ekki framseldur til Bandaríkjanna, þar sem hann á yfir höfði sér ákæru fyrir njósnir.
„Við höfum samþykkt það sem Ekvadorarnir fóru fram á,“ sagði talskona sænska dómsmálaráðuneytisins um málið við Guardian. Það hafi verið pólitísk ákvörðun að hefja þessar viðræður. „Venjulega geta ráðherrar ekki blandað sér í einstök mál, það er hluti af okkar kerfi, og er ströng regla. Á sama tíma er það stjórnvalda að gera samkomulög við önnur ríki. Ákvörðun var tekin um að færa þetta mál upp á stig ríkisstjórnarinnar.“
Sænsk stjórnvöld segja að vegna þess hversu sérstakt málið er og vegna þess að það sé vilji til þess að klára málið, hafi verið ákveðið að ganga til viðræðna.
Hluti ásakana gegn Assange eru nú fyrndar. Nauðgunarkæra gegn honum fyrnist hins vegar ekki fyrr en árið 2020.