Tæpur þriðjungur allrar orku sem notuð var í samgöngum í Svíþjóð árið 2020 kom frá endurnýjanlegum orkugjöfum, en samsvarandi hlutfall í Noregi nam 28 prósentum sama árið. Hérlendis var hlutfall hreinnar orku í samgöngum aftur á móti aðeins tólf prósent. Þetta kemur fram á vef hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.
Samkvæmt Eurostat náði Evrópusambandið naumlega eigin markmiði um að láta 10 prósent orkunnar sem notuð er fyrir samgöngur vera endurnýjanlega árið 2020.
Hins vegar var hlutfallið mjög breytilegt á meðal aðildarríkja sambandsins, til að mynda voru einungis 5,3 prósent orkunnar í samgöngum í Grikklandi endurnýjanleg. Sömuleiðis var hlutfallið undir 10,2 prósenta meðaltali Evrópusambandsins, en græn orka nam einungis 9,6 prósentum heildarorkunnar til samgangna þar í landi.
Hlutfallið á öllum hinum Norðurlöndunum var þó nokkuð yfir meðaltali ESB, en hér á landi nam það 12 prósentum á meðan það nam 13,4 prósentum í Finnlandi. Hlutfall endurnýjanlegrar orku var þó langhæst í Noregi og Svíþjóð, en þar nam það 28,7 og 31,9 prósentum.
Evrópusambandið skilgreinir allt lífeldsneyti, lífmetan og svollað „grænt“ rafmagn sem endurnýjanlega orkugjafa. Samkvæmt Eurostat má skýra hátt hlutfall grænnar orku í samgöngum í Svíþjóð vegna mikillar notkunar á lífeldsneyti þar í landi.