Aðalsteinn Leifsson, sérfræðingur í samningatækni, og Andrea ofurneytandi fóru yfir tryggingamál Andreu í fjórða þætti Ferðar til fjár. Andrea vildi athuga hvort hún gæti lækkað kostnaðinn við tryggingar heimilisins en áður en Andrea hélt í það ferðalag, þá ráðlagi Aðalsteinn henni að fara vel yfir þær tryggingar sem hún vill hafa. „Það er ágætt að fá ráðleggingar frá tryggingafélaginu, en líka að taka eigin, upplýsta ákvörðun um þína tryggingavernd.“
Aðalsteinn sagði flesta þá sem leita betri kjara einfaldlega halda á fund í sínu tryggingarfélagi og biðja vinsamlega um betri kjör. „Það er ágætt og gott að fá betri kjör. En vandamálið er að það getur verið erfitt að sjá hvaða kjör eru ásættanleg og hver ekki. Það er erfitt að meta hvort tilboðið sé gott eða slæmt,“ sagði Aðalsteinn. Til þess að fá samanburð og bæta samningastöðuna sé því best að fá tilboð frá öðru tryggingarfélagi samtímis.
Ekki skipta strax
Andrea ræddi við tvö tryggingarfélög og fékk tilboð frá báðum. Annað félaganna var það sem hún var fyrir með sín viðskipti. Hitt félagið sem hún talaði við bauð henni þó betri kjör.
Aðalsteinn lagði áherslu á að stökkva ekki til og skipta um félag. „Sem einstaklingur í samningaviðræðum við stórt tryggingarfélag þá spáir þú í hlutum sem eru annars eðlis en einungis bestu kjörin. Til dæmis ástæður þess af hverju þú valdir hitt félagið í upphafi. Það er líka ákveðið vesen og umstang að skipta um tryggingarfélag.“
Hann ráðlagði Andreu að skoða lægra tilboðið og velta fyrir sér þessum óefnislegu þáttum, það er hversu mikið lægra nýja tryggingarfélagið þurfi að bjóða svo það borgi sig að færa viðskiptin. „En þú sérð að það er töluverður munur á að ganga inn í þitt tryggingarfélag án þess að vera með tilboð í hendinni, og ganga inn vitandi að þú ert með hagstæðara tilboð annars staðar frá.“
Vopnuð lægra tilboðinu hélt Andrea á fund við sitt gamla tryggingarfélag. Þar voru henni boðin enn betri kjör en hitt félagið hafði boðið og hélt hún sér því í viðskiptum á sama stað og áður. Samningaviðræðurnar voru sannarlega ferð til fjár!
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 12. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.