Virði 300 þúsund króna lágmarkslauna árið 2018 jafngildir um 267 þúsund krónum í dag, verði verðbólga að jafnaði 4 prósent á ári fram til maí 2018. Raunhækkun lágmarkslauna samkvæmt nýlega undirrituðum kjarasamningum VR og Félags atvinnurekenda yrði þá um 25 prósent á þessum þremur árum.
Lágmarkslaun, eða svokölluð lágmarkstekjutrygging, er í dag 214 þúsund krónur á mánuði. Nýr kjarasamningur hækkar lágmarkið strax í 245 þúsund krónur á mánuði og hækkar síðan ár frá ári þar til það stendur í 300 þúsund krónum í maí 2018.
Seðlabanki Íslands og Samtök atvinnulífsins eru meðal þeirra sem óttast hafa verðbólguskrið hækki launataxtar mikið við undirskrift nýrra kjarasamninga. Hækkun verðlags þýðir að raunvirði launa lækkar. Með öðrum orðum eru 300 þúsund krónur í dag minna virði í framtíðinni vegna hækkandi verðlags.
Í töflunni hér að neðan má sjá hvert raunvirði lágmarkslauna er á ári hverju, miðað við misháa árlega verðbólgu. Með lágmarkstryggingu er átt við lægstu mögulegu lágmarkslaun til greiðslu á mánuði.
Verðbólga á ári | |||||
Ár (í maí) | Lágmarkstekjutrygging skv. kjarasamningum | 2% | 3% | 4% | 5% |
Er í dag | 214.000 | 214.000 | 214.000 | 214.000 | 214.000 |
2015 | 245.000 | 245.000 | 245.000 | 245.000 | 245.000 |
2016 | 260.000 | 254.902 | 252.427 | 250.000 | 247.619 |
2017 | 280.000 | 269.127 | 263.927 | 258.876 | 253.968 |
2018 | 300.000 | 282.697 | 274.542 | 266.699 | 259.151 |
Haldist verðbólga að meðaltali tvö prósent á næstu árum verður virði 300 þúsund króna lágmarkslauna um 282 þúsund krónur á raunvirði dagsins í dag árið 2018. Verði verðbólga aftur á móti 5 prósent á ári verður virði 300 þúsund króna lágmarkslauna ekki nema um 259 þúsund krónur árið 2018.
Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga verði 4,5 prósent að meðaltali á næstu þremur árum. Í nýjasta hefti Peningamála, ársfjórðungslegu riti Seðlabankans, er einnig spáð aukinni verðbólgu á komandi mánuðum og árum, ekki síst vegna verðbólguþrýstings frá vinnumarkaði.