Ein af fyrstu framkvæmdunum sem beinlínis tengjast Borgarlínu og íbúar á höfuðborgarsvæðinu ættu að verða varir við verður líklega Fossvogsbrúin, en áformað er að vinna við fyllingar við brúarendana í Nauthólsvík og á Kárnesi hefjist um mitt árið eða í haust og að farið verði í frekari framkvæmdir við brúnna á næsta ári.
Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli Bryndísar Friðriksdóttur, svæðisstjóra höfuðborgarsvæðis Vegagerðarinnar, sem hélt erindi um stöðu stofnvega- og borgarlínuverkefna í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins á fundi sem Vegagerðin og Betri samgöngur stóðu fyrir í morgun.
Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er sannkallað stórátak í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu næsta rúma áratug, en til upprifjunar þá ætla ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgasvæðinu að verja alls 120 milljörðum króna í framkvæmdir fram til ársins 2033, þar 52,2 milljörðum í stofnvegaframkvæmdir og 49,6 milljörðum í innviði Borgarlínu.
Fram kom í máli Bryndísar að borgarlínuverkefnið væri brátt að byrja í forhönnun og að verið væri að horfa til þess þessa dagana hvernig ætti að skipta fyrsta áfanga þess – í hvaða röð eigi að umbreyta götunum þar sem Borgarlínan kemur til með að fara um.
Í þeirri ákvarðanatöku allri þarf að horfa til þess að ýmsar aðrar framkvæmdir verða í gangi á sama tíma, eins og Bryndís benti á. „Á sama tíma og við ætlum að vera að framkvæma Borgarlínuna ætlum við líka að vera að framkvæma Sæbrautarstokkinn og gatnamótin við Bústaðaveginn og hluta af Miklubrautarstokknum, tenginguna þarna upp á Snorrabraut, og við þurfum svolítið að sjá í gegnum það að það lokist ekki bara allt hjá okkur,“ sagði Bryndís.
„Stærsta markmiðið okkar er að tryggja öryggi vegfarenda og öryggi þeirra sem eru að vinna að þessum framkvæmdum,“ bætti hún við.
Í svari við spurningu eftir að öllum erindum var lokin sagði hún að Vegagerðin væri ekki komin með „neitt gott svar“ við því hvernig ætti að tryggja að umferð kæmist leiðar sinnar um höfuðborgarsvæðið á meðan þessum miklu framkvæmdum stendur. Hins vegar er unnið að greiningum í þeim efnum.
Brú fyrir vinstri beygju inn á Bústaðaveg
Bryndís sagði frá stöðunni á vinnu við hönnun gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegi. Hún sagði frá því að verið væri að skoða gamla lausn sem fæli í sér að setja vinstri beygjuna af Reykjanesbraut inn á Bústaðaveg á brú. Með því móti yrði hægt að hafa hægri beygjur inn og út af Bústaðaveginum í frjálsu flæði og beina umferðin á Reykjanesbrautinni fengi frítt flæði – umferðarljósin myndu víkja.
Inn í þessa hönnun alla spilar svo einnig lega Borgarlínu meðfram Reykjanesbrautinni, en tenging Borgarlínu frá Mjódd í hinu nýju Vogabyggð er hluti af lotu 3 af framkvæmdum við Borgarlínuna. Bæði er til skoðunar að hafa akleið Borgarlínunnar fyrir miðju vegar, en einnig er horft til þess að hafa sérrýmið í jaðri akvegarins og Elliðaárdalsins.
Vegagerðin býst við því að geta sýnt frekar á spilin hvað þessi margumræddu gatnamót varðar á vormánuðum, samkvæmt Bryndísi.
Mikill áhugi frá sveitarfélögum, háskólum, fjárfestum og almenningi
Bryndís sagði frá því í erindi sínu að nærri öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hefðu haft mikinn áhuga á því að flýta undirbúningi borgarlínutenginga inn til þeirra.
Einnig sagði Bryndís að hið sama gilti um bæði háskólasamfélögin hjá HÍ og HR, og að báðir skólar væru mjög metnaðarfullar áætlanir um stoppistöðvar og eiginlega umbreytingu á umhverfinu við skólana, með tengingum Borgarlínu.
„Svo finnum við líka fyrir því að fjárfestar hafa verið að fjárfesta í lóðum á nálægum stöðum við Borgarlínu og hafa verið að kalla eftir því að sjá hvernig Borgarlínan er hugsuð í gegn þannig að þeir geti farið að undirbúa sína uppbyggingu. Svo fáum við líka fyrirspurnir frá íbúum sem vilja fá stoppistöð fyrir utan heimili sitt, svo áhuginn er mjög mikill,“ sagði Bryndís.