Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) og Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður samtakanna, rita grein í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni „Sviðin tollvernd.“
Þar vekja tvímenningarnir athygli á því að innlendir framleiðendur séu orðnir uppiskroppa með hin þjóðlegu svið, og það á sjálfum þorranum. Samkvæmt greininni má rekja skortinn, meðal annars til þess að að innlendir framleiðendur séu farnir að herja á erlenda markaði með íslensku sviðin. „Ástand þetta er enn ein áminningin um á hvaða endastöð innflutningstakmarkanir á landbúnaðarvörum eru komnar,“ segir í greininni.
Eins og kunnugt er hafa SVÞ lengi barist fyrir umbótum varðandi innflutning á landbúnaðarvörum. Í viðleitni sinni hafa samtökin meðal annars leitað til umboðsmanns Alþingis, dómstóla og Eftirlitsstofnunar EFTA, sem komst að þeirri niðurstöðu í október að núggildandi löggjöf á Íslandi varðandi innflutning á fersku kjöti brjóti í bága við EES-samninginn.
Ríkisstyrkt framleiðsla í þágu erlendra neytenda
Í greininni fagna SVÞ að innlendir framleiðendur söðli um á erlendum mörkuðum. „Hins vegar svíður það að slík framganga sé á kostnað innlendra neytenda og verslana og að innlend framleiðsla, sem styrkt er af skattfé og framleidd í fullkomnu skjóli tollverndar, standi ekki innlendum neytendum til boða.“
SVÞ segja að rök ríkisins fyrir viðvarandi tollvernd og innflutningstakmörkunum hafi ávallt verið að með þeim sé verið að styðja við innlenda framleiðslu og tryggja framboð til innlendra neytenda.
„Það kann því að skjóta skökku við að sú tollvernd sé farin að snúast upp í andhverfu sína á þá vegu að verndin sé til þess fallin að tryggja framleiðslu hér á landi fyrir erlenda neytendur. Með öðrum orðum er hin ríkisstyrkta framleiðsla í þágu erlendra matgæðinga,“ segir í greininni.
Að endingu skora SVÞ á Sigurð Inga Jóhannsson landbúnaðarráðherra að taka tillit til gagnrýni samtakanna um ágalla á núverandi tollkvótakerfi, og hann tryggi innlendri framleiðslu aukið aðhald með innflutningi á landbúnaðarvörum án þess að hann sé undirorpinn himinháum tollamúrum og óyfirstíganlegum innflutningshömlum. „Síðast en ekki síst skora SVÞ á landbúnaðarráðherra að taka af skarið og tryggja íslenskum neytendum aukið vöruúrval á landbúnaðarvörum á lægra verði.“