Hlauparinn Pétur Sturla Bjarnason hefur áfrýjað dómsniðurstöðu dómstóls ÍSÍ, þar sem nýkrýndur Íslandsmeistari karla í maraþoni, Arnar Pétursson, var sýknaður af ásökunum um svindl í Reykjavíkurmaraþoninu, til áfrýjunardómstóls ÍSÍ.
Í bréfi sem Pétur Sturla sendi áfrýjunardómstóli ÍSÍ í dag, og Kjarninn hefur undir höndum, bendir hann á að yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþons hafi viðurkennt í úrskurði sínum að reglur hlaupsins hafi verið brotnar þegar tveir hjólreiðamenn fylgdu Arnari þrjá fjórðu hluta hlaupaleiðarinnar. Í 10. grein reglna Reykjavíkurmaraþons segir: "Hlaupabrautin er eingöngu ætluð keppendum. Ekki er heimilt að fylgja hlaupurum gangandi, hlaupandi, á hjóli eða öðrum farartækjum (undanþága fyrir fylgdarmenn fatlaðra). Það er á ábyrgð þátttakenda að vísa frá þeim sem vilja fylgja. Í 18. grein reglnanna segir ennfremur: "Brot á ofangreindum reglum ógilda þátttökurétt í hlaupinu."
Eins og Kjarninn hefur fjallað um, vísaði yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþons kæru Péturs Sturla frá, þar sem ekki þótti sannað að hjólreiðamennirnir hefðu aðstoðað Arnar í hlaupinu, og sigur hans í maraþoninu hafi verið það afgerandi að fylgd hjólreiðamannanna hafi ekki haft áhrif á úrslit Reykjavíkurmaraþonsins. Þá segir í niðurstöðu yfirdómnefndarinnar: "Ósannað er einnig að þeir (hjólreiðamennirnir) hafi hvatt hann (Arnar) áfram, og að hann hafi svindlað eins og fullyrt er í kærunni. Þá hefur hvergi komið fram að hann hafi þegið drykki úr hendi aðstoðar- eða fylgdarmanna." Þetta orðalag er athyglisvert fyrir þær sakir að hvergi í kæru málsins er minnst á að fylgdarmenn Arnars hafi veitt honum drykki í hlaupinu.
Faðir Arnars Péturssonar er Pétur Hrafn Sigurðsson sölustjóri hjá Íslenskum getraunum. Hann hefur um árabil starfaði innan íslensku íþróttahreyfingarinnar og skrifaði greinargerð fyrir hönd sonar síns sem send var yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþonsins. Þar viðurkennir Pétur Hrafn að hann og sonur hans hafi fylgt Arnari eftir hluta hlaupsins sér til skemmtunar.
Í áfrýjunarbréfinu er jafnframt vakin athygli á ósamræmi í úrskurði yfirdómnefndar Reykjavíkurmaraþons hins vegar, og dómsorði dómstóls ÍSÍ annars vegar. Í niðurstöðu dómstóls ÍSÍ segir: "Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið bæði fyrir yfirdómsnefnd Reykjavíkurmaraþons og þennan dómstól verður ekki séð að sönnur hafi verið færðar á brot Arnars Péturssonar á 10. grein reglna sem gilda fyrir þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem geri það að verkum að ógilda beri þátttökurétt hans í framangreindu Reykjavíkurmaraþoni. Með vísan til rökstuðnings yfirdómnefndar í niðurstöðu sinni ber því að staðfesta hana. Af þeim sökum er ekki fallist á dómkröfu kæranda í málinu."
Í greinargerð sem Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) sendi dómstóli ÍSÍ fyrir hönd Reykjavíkurmaraþons og yfirdómnefndar hlaupsins, segir að framkvæmd maraþonsins heyri undir reglur Alþjóða frjálsíþróttasambandsins (IAAF) um framkvæmd götuhlaupa, og ÍBR líti svo á að þær reglur séu æðri reglum Reykjavíkurmaraþonsins. Í íslenskri þýðingu Frjálsíþróttasambands Íslands á reglum IAAF um almennar keppnisreglur er enska orðið "pacing" þýtt sem að "leiða." Reyndir hlauparar sem Kjarninn bar þýðinguna undir, eru sammála um að rétt þýðing orðsins "pacing" sé "hraðastjórnun."
Í niðurlagi áfrýjunarbréfs Péturs Sturlu til áfrýjunardómstóls ÍSÍ segir: "Í þeim athugasemdum sem frá mér fylgdu til Dómstóls ÍSÍ og ég geri hér með að athugasemdum mínum til Áfrýjunardómstóls ÍSÍ þótti mér óþarft að taka það fram að það ómerkir auðvitað alla dómsmeðferð ef í dómnefnd eða/og dómstóli eru einstaklingar sem eru samstarfsmenn, þiggjendur, veitendur, skyldmenni, venslafólk eða vinir og kunningjar þeirra feðga sem eru aðilar að málinu."