Róttæki vinstriflokkurinn Syriza, sem hefur heitið því að binda enda á það sem hann kallar niðurlægingartímabil Grikklands, vann stórsigur í grísku þingkosningunum í gær. Þegar búið var að telja um 80 prósent atkvæða hafði flokkurinn fengið um 36 prósent atkvæða sem tryggir honum væntanlega 149 af 300 sætum á gríska þinginu. Syriza er því einungis tveimur sætum frá hreinum meirihluta.
Flokkur Antonis Samaras, núverandi forsætisráðherra, fékk um 29 prósent atkvæða. Samaras hefur þegar hringt í Alexis Tsipras, leiðtoga Syriza, til að óska honum til hamingju með sigurinn. Þetta kemur fram í frétt hjá Reuters-fréttastofunni.
Flokkur Antonis Samaras, núverandi forsætisráðherra, fékk um 29 prósent atkvæða.
Ólga innan Evrópusambandsins
Ljóst er að sigur Syriza mun valda mikill ólgu innan Evrópusambandsins enda hefur Tsipras ítrekað lýst því yfir að hann vilji endursemja um endurgreiðslur á himinháum neyðarlánum sem Grikkir fengu í kjölfar efnahagshruns síns. Lánin eru hluti af víðtæku samstarfi Grikklands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópusambandið og Seðlabanka Evrópu. Tsipras sagði við stuðningsmenn sína í gær, eftir að sigurinn var ljós, að tími aðhaldsaðgerða í ríkisrekstri, sem hafa verið skilyrði lánveitinganna, sé liðinn. Nú verði samstarfinu hætt og samið upp á nýtt.
Tsipras sagði við stuðningsmenn sína í gær, eftir að sigurinn var ljós, að tími aðhaldsaðgerða í ríkisrekstri, sem hafa verið skilyrði lánveitinganna, sé liðinn. Nú verði samstarfinu hætt og samið upp á nýtt.
Margir leiðtogar helstu Evrópusambandsríkja óttast að niðurstaðan muni valda efnahagslegri ólgu í álfunni og að önnur ríki innan sambandsins sem eiga í miklum efnahagsvanda muni ákveða að fara sömu leið og Gríkkir. Það gæti ógnað framtíð evru-samstarfsins.
Þessi ótti kom bersýnilega fram í Twitter-færslu David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í nótt. Þar sagði hann að sigur Syriza muni auka efnahagslega óvissu um alla Evrópu.
The Greek election will increase economic uncertainty across Europe. That's why the UK must stick to our plan, delivering security at home.
— David Cameron (@David_Cameron) January 25, 2015