Alls segjast 29,8 prósent landsmanna gera minnstar væntingar til Jóns Gunnarssonar innanríkisráðherra af þeim ráðherrum sem skipa nýja ríkisstjórn. Hann er sá ráðherra sem langflestir gera litlar væntingar til en næst flestir nefndu Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eða 16,8 prósent. Alls sögðust 13,6 prósent aðspurðra að þeir gerðu minnstar væntingar til Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, og 10,2 prósent nefndu Svandísi Svavarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu sem framkvæmd var í síðasta mánuði, eftir að annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum.
Þegar spurt var til hvaða ráðherra mestar væntingar voru gerðar kom í ljós að áberandi flestir, eða 35,8 prósent, nefndu Willum Þór Þórsson, nýjan ráðherra Framsóknarflokksins sem fer með heilbrigðismál í ríkisstjórninni. Á eftir honum kom flokksfélagi hans, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, með 19,8 prósent og 13,2 prósent nefndu forsætisráðherrann Katrínu Jakobsdóttur. Væntingar til hinna flokksleiðtoga stjórnarflokkanna voru mun minni. Alls 5,1 prósent nefndi Bjarna Benediktsson og 4,1 prósent Sigurð Inga Jóhannesson innviðaráðherra.
Vinstri græn hafa dalað
Í nýjustu könnun Gallup á fylgi flokka, sem gerð var 1. til 30. desember, kom fram að 51,6 prósent aðspurðra myndu kjósa ríkisstjórnarflokkanna. Stjórnin fer því verr af stað en hún gerði á fyrsta kjörtímabili sínu og hefur tapað nokkrum prósentustigum frá því í kosningunum síðastliðið haust. Mest munar um að fylgi Vinstri grænna hefur dregist töluvert saman, eða um tvö prósentustig. Það mælist nú 10,6 prósent og hefur einungis einu sinni mælst minna síðan í janúar 2020. Það var skömmu fyrir síðustu kosningar þegar 10,2 prósent kjósenda sögðust styðja flokkinn.
Sjálfstæðisflokkurinn dalar líka frá kosningunum, alls um 1,1 prósent, og nýtur nú stuðnings 23,3 prósent kjósenda. Vert er að taka fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tilhneigingu til að mælast með minna fylgi í könnunum en hann fær í kosningum. Framsóknarflokkurinn bætir einn stjórnarflokkanna við sig frá kosningunum og um síðustu áramót sögðust 17,7 prósent að þeir myndu kjósa flokkinn ef gengið yrði til kosninga nú.
Piratar á flugi en Miðflokkur að hverfa
Sá stjórnarandstöðuflokkur sem hefur bætt mestu fylgi við sig á fyrstu mánuðum yfirstandandi kjörtímabils eru Píratar. Nú segjast 12,5 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa flokkinn, sem er 3,9 prósent meira en hann fékk í kosningunum í september í fyrra. Píratar hafa sögulega oft mælst með meira fylgi í könnunum en þeir fá í kosningum. Flokkurinn er nú að mælast sem þriðji stærsti flokkur landsins, stærri en Vinstri græn sem voru það eftir síðustu kosningar.
Samfylkingin bætir lítillega við sig frá kosningum og mælist nú með 10,5 prósent fylgi, sem er nánast sama fylgi og Vinstri græn mælast með.
Viðreisn er á svipuðum slóðum og í haust með 8,7 prósent fylgi og sömu sögu er að segja með Flokk fólksins, sem mælist með 8,6 prósent fylgi, og Sósíalistaflokk Íslands, sem mælist með 4,5 prósent fylgi.
Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem telur nú tvo þingmenn, heldur áfram að dala og mælist nú með einungis 3,4 prósent fylgi, sem er 2,1 prósentustigum minna en hann fékk í síðustu kosningum. Fylgi Miðflokksins hefur aldrei mælst minna í mælingum Gallup frá því að það var fyrst mælt í aðdraganda kosninganna 2017.
Niðurstöður um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 30. desember 2021. Heildarúrtaksstærð var 7.890 og þátttökuhlutfall var 51,2 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,6-1,4 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.