Rannsókn sem Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, vinnur að ásamt Jónasi Orra Jónassyni félagsfræðingi, sýnir að 46 prósent landsmanna telji að sakborningar í Al Thani-málinu svokallaða hafi fengið of væga dóma. 36 prósent aðspurðra sögðust telja efnahagsbrot vera alvarlegustu brotin. Lengst af hafa rannsóknir sýnt að Íslendingar hafi talið fíkniefnabrot þau alvarlegustu. Mælingin á árinu 2015 sé sú fyrsta sem sýni að flestir hafi áhyggjur af efnahagsbrotum. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, voru allir dæmdir sekir í Al-Thani málinu í Hæstarétti í febrúar síðastliðnum. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár. Þeir hafa allir hafið afplánun á dómum sínum.
Helgi segir við Fréttablaðið að niðurstaðan um skoðun landsmanna á þyngd dómanna komi sér á óvart. Hann hafi búist við því að margir myndu segja að dómarnir í Al Thani-málinu væru hæfilega þungir. Þar bendir hann einnig á að einstaklingarnir sem dæmdir voru í málinu hafi mátt þola ýmislegt í íslensku samfélagi. Þeir hafi orðið fyrir miklum álitshnekki sem megi líta á sem refsingu. Hann segir dómanna einnig þunga í alþjóðlegu samhengi. Þeir veki eftirtekt á alþjóðavísu og búast megi við fleiri dómsuppsögum.