BlackBerry símaframleiðandinn hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár og hefur fyrirtækinu margsinnis verið spáð gjaldþroti, þar sem því tókst ekki að þróa vöru sem var samkeppnishæf við snjallsímana, einkum frá Apple og Samsung.
Nú segir forstjóri BlackBerry, John Chen, að BlackBerry ætli sér stóra hluti og aukna markaðshlutdeild með nýjum síma, BlackBerry Classic, en hann líkist síma fyrirtækisins sem var eitt mesta tákn velgengni á heimsvísu á árum áður, ekki síst árið 2007.
Í umfjöllun The Verge um BlackBerry Classic segir að síminn eigi að vera góður í notkun í annarri hendi, og kosta 450 Bandaríkjadali, eða sem nemur um 60 þúsund íslenskum krónum.
BlackBerry tapaði 5,9 milljörðum Bandaríkjadala á árinu 2013, eða sem nemur ríflega 700 milljörðum króna.