Í árshlutareikningi Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins, sem birtur var í dag, kemur fram að sá hluti rekstrar hennar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, hafi verið rekinn í 8,9 milljarða króna tapi. Það er umtalsvert verri niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, en í henni var reiknað með 4,8 milljarða króna tapi á þessum hluta rekstrarins.
A-hluti borgarinnar tapaði 3,8 milljörðum króna á árinu 2021 og 5,8 milljörðum króna á árinu 2020.
Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.
Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fyrri hluta ársins 2022 var gert ráð fyrir að samstæða hennar, bæði A- og B-hluti rekstrarins, myndi skila 3,4 milljarða króna hagnaði. Niðurstaðan í rekstrinum reyndist allt önnur, eða 13,2 milljarða króna hagnaður. Hagnaður samstæðunnar var 23,4 milljarðar króna í fyrra en árið 2020 tapaði hún 2,8 milljörðum króna.
Virði íbúða Félagsbústaða hækkaði gríðarlega
Stærsta ástæða þess að afkoma samstæðunnar reyndist heilum 9,8 milljörðum krónum betri en gert hafði verið ráð fyrir skýrist einkum af því að virði eigna Félagsbústaða, félags utan um félagslegar leiguíbúðir í eigu Reykjavíkur, hækkaði 16,9 milljarðar króna umfram áætlun. Hækkunin endurspeglar hækkun á fasteignamati. Íbúðirnar 3.030 sem Félagsbústaðir eiga voru metnar á 146,7 milljarða króna um mitt þetta ár.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að vonir hefðu staðið til að viðsnúningur í kjölfar kórónuveirufaraldurs yrði kröftugur á árinu 2022. „Þrátt fyrir að vel hafi gengið að ná atvinnuleysi niður hafa stríðsátök og viðvarandi vandamál í aðfangakeðjum sett hagkerfi heimsins í uppnám. Verðbólga mælist mun hærri en spáð var, bæði hérlendis sem og í öllum helstu viðskiptalöndum Íslands. Þá hefur óvissa á fjármálamörkuðum aukist mikið sem m.a. hefur endurspeglast í lækkun hlutabréfaverðs og hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Þessi breytta staða í ytra umhverfi endurspeglast í rekstrarniðurstöðu borgarinnar á tímabilinu.“
Rifa seglin í fjárfestingu
Þar er haft eftir Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra í Reykjavík að borgin sé nú að rifa seglin í takt við breyttar aðstæður, eftir að hafa aukið fjárfestingar í faraldrinum, en fjárfestingar ársins lækka um alls sjö milljarða króna. „Stóra áskorunin í rekstri sveitarfélaga um land allt eru svo þær fjárhæðir sem þau eiga útistandandi hjá ríkinu vegna lögboðinna skyldna sem þau inna af hendi í þjónustu við fatlað fólk. Það er eitt af lykilverkefnum í fjármálum borgarinnar að knýja á um réttláta leiðréttingu á þeim og vonumst við eftir góðri samvinnu við ríkisstjórn, Alþingi og hagsmunasamtök fatlaðs fólks við að fá úrbætur í þessu efni fljótt og vel. Það getur ekki beðið. Áfram verður unnið að fjármálum og fjármálastjórn borgarinnar af ábyrgð og festu.“
Borgarráð samþykkti í dag að setja í forgang að leiðrétta þann mikla halla sem sé á fjárhagslegum samskiptum Reykjavíkurborgar og ríkisins. Sérstakt aðgerðateymi hefur verið skipað sem vinnur að málum með borgarstjóra, tryggir yfirsýn og veitir fulltrúum borgarinnar og sveitarfélaga í ýmsum hópum sem fjalla um málin á vettvangi stjórnsýslunnar bakland og stuðning. Borgarstjóri og teymið mun reglulega upplýsa borgarráð um framgang mála og formlegt heildaryfirlit yfir fjárhagsleg samskipti ríkis og Reykjavíkurborgar verður lagt fyrir borgarráð að minnsta kosti tvisvar á ári.
Borgarráð samþykkti einnig rammaúthlutun þar sem sviðum borgarinnar eru lagðar línur fyrir gerð fjárhagsáætlunar næsta árs. Í tilkynningunni segir að hvatt sé til aukins aðhalds í rekstri um leið og grænar áherslur, sjálfbærni til lengri og skemmri tíma, betri rekstur og skilvirk þjónusta verði höfð að leiðarljósi. „Gert er ráð fyrir hagræðingu sem nemur eitt prósent af launakostnaði. Þá hefur mannauðs- og starfsumhverfissviði verið falið að gera tillögu að breyttum ráðningarreglum og eftirfylgni með þeim. Markmiðið er að auka yfirsýn með nýráðningum og endurráðningum vegna starfsmannaveltu, draga úr eða fresta ráðningum þar sem færi er á en ekki skapa hik varðandi ráðningar vegna grunnþjónustu við velferð, skóla og frístund þar sem mikilvægt átak í ráðningum stendur yfir.“