Halli af rekstri Hafnarfjarðarkaupstaðar var 389 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Áætlanir bæjarins gerðu ráð fyrir um 80 milljóna króna taprekstri. Frávikið er sagt vera vegna ófyrirsjáanlegrar endurgreiðslu á eftirágreiddu útsvari að fjárhæð um 400 milljónir króna. Aðrar tekjur voru yfir áætlun vegna söluhagnaðar hlutabréfa í HS Veitum. Rekstur málaflokka var í takt við áætlanir, segir í tilkynningu frá Hafnarfjarðarkaupstað vegna birtingar árshlutauppgjörs.
Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð mynda meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Bæjarstjóri er Haraldur L. Haraldsson.
Í tilkynningu bæjarins segir að erfitt verði að ná áætlun ársins um jákvæða rekstrarafkomu. „Vegna ofangreinds fráviks og fyrirsjáanlegra áhrifa af breyttu starfsmati, sem mun hafa í för með sér útgjaldaaukningu að andvirði um 200 milljóna króna, er ljóst að erfitt verður að ná áætlunum ársins um jákvæða rekstrarafkomu að fjárhæð 219 milljónir króna.
Hafnarfjarðarkaupstaður mun leggja ríka áherslu á aðhald í rekstri og eins og fram hefur komið í tilkynningum er verið að vinna að umbótaráætlun til að bæta reksturinn en áhrifa hennar mun ekki gæta nema að óverulegu leyti á árinu 2015,“ segir í tilkynningunni.
Eignir Hafnarfjarðarkaupstaðar nema um 37,8 milljörðum króna og eignir A og B hluta nema samtals um 48 milljörðum króna. Skuldir nema um 34 milljörðum og með B hluta nema þær um 40 milljörðum króna.