Í dómi bresks dómstóls í máli sem Vincent Tchenguiz hefur höfðað gegn slitastjórn Kaupþings, endurskoðendafyrirtækinu Grant Thornton í Bretlandi (Grant Thornton UK) og nokkrum starfsmanna þessarra aðila, sem birtur var í gær, er ekki tekið nein afstaða til efnisatriða málsins heldur einungis hvort rétturinn hafi lögsögu yfir þeim sem stefnt var. Þetta tók dómari málsins sérstaklega fram í niðurstöðu sinni, sem var sú að lögsaga dómsins nái ekki yfir slitabú Kaupþings en að hægt sé að fjalla um meintar sakargiftir á hendur Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, formanni skilanefndar Kaupþings, fyrir honum.
Kjarninn hefur dóminn undir höndum og hann er hægt að lesa í heild sinni hér.
Tchenguiz stefndi Grant Thornton í Bretlandi og tveimur starfsmönnum fyrirtækisins, Kaupþingi og Jóhannesi Rúnari fyrir að hafa lagt á ráðin um, haft frumkvæði að og tekið þátt í, rannsókn bresku efnahagsbrotadeildarinnar Special Fraud Office (SFO), á honum og fyrirtækjum í hans eigu. Þetta hafi leitt til þess að hann var handtekinn á heimili sínu í mars 2011 og leitað var á skrifstofu hans og í fyrirtækjum í hans eigu. Hann vill fá 2,2 milljarða punda, um 455 milljarða króna, í bætur vegna þessa.
Tilgangurinn, að sögn Vincent Tchenguiz, var sá að nota rannsókn SFO á meintum glæpum hans til að knýja hann til að semja um málefni sinna félaga gagnvart Kaupþingi, afla gagna frá SFO, sem embættið gerði upptækt í húsleit hjá Vincent, sem Kaupþing hefði ella ekki getað aflað og síðan misnota þau gögn í samskiptum sínum við Vincent Tchenguiz. Hann telur að með þessu hafi Kaupþing viljað komast yfir eignir hans og fyrirtæki sem honum tengdust. Þetta átti að skila Kaupþingi auknum eignum og Grant Thornton í Bretlandi auknum greiðslum, þar sem starfsmenn fyrirtækisins myndu sjá um skipti á þeim eignum sem teknar yrðu yfir.
Vincent Tchenguiz vill fá 445 milljarða króna í bætur.
Segir Tchenguiz vera að reyna að tryggja sér óeðlilega ávinning
Í janúar fóru Kaupþing og Jóhannes Rúnar fram á að öllum kröfum á hendur þeim yrði vísað frá á grundvelli þess að breskir dómstólar hefðu ekki lögsögu yfir þeim.
Dómur undirréttar í Bretlandi komst að þeirri niðurstöðu í gær að lögsaga enskra dómstóla næði ekki yfir slitabú Kaupþings, enda hefðu íslenskir dómstólar einir lögsögu yfir uppgjöri slitabús. Dómari málsins komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að hægt væri að fjalla um sakargiftir á hendur Jóhannesi Rúnari fyrir dómstólum í Bretlandi. Það kemur hins vegar skýrt fram í niðurstöðu dómarans að ekki væri með neinum hætti verið að fjalla um efnisatriði þeirra ásakana sem bornar hafi verið á Jóhannes Rúnar í þessum anga málsins.
Í tilkynningu sem slitastjórn Kaupþings sendi frá sér í gær vegna málsins er haft eftir Jóhannesi Rúnari að hann telji að kröfur Tchenguiz séu „lítt dulin tilraun Vincent Tchenguiz til að tryggja sjálfum sér og tengdum skuldurum óeðlilegan ávinning við slit Kaupþings. Skuld þessara aðila við Kaupþing nemur meira en 143 milljónum sterlingspunda, sem jafngildir um 30 milljörðum íslenskra króna. Skuldin er tryggð með persónulegri ábyrgð Vincent Tchenguiz að fjárhæð 10 milljónir sterlingspunda, sem jafngildir meira en 2 milljörðum króna.“
Jóhannes Rúnar segir ásakanir Tchenguiz á hendur sér vera fjarstæðukenndar og að þær eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. „Rannsóknir erlendra lögregluyfirvalda og handtaka Vincent Tchenguiz eru ákvarðanir sem teknar voru af þeim og á þeirra ábyrgð og hvorki ég né Kaupþing leituðumst nokkru sinni við að koma slíkum aðgerðum í kring. Ég mun verjast öllum kröfum áður nefndra aðila af festu enda kröfur þeirra tilhæfulausar með öllu og allar sakargiftir rangar. Ef Vincent Tchenguiz og tengdir aðilar kjósa að halda kröfum á hendur mér til streitu er ég þess fullviss að enskir dómstólar muni sýkna mig af öllum kröfum sem hafðar eru uppi á hendur mér.“
Auk þess kom fram í tilkynningunni að slitabú Kaupþings muni fara fram á að Tchenguiz greiði allan málskostnað sem þegar er til fallinn vegna stefnu á hendur því.
Vincent Tchenguiz horfir aðeins öðruvísi á málið. Í tilkynningu sem hann sendi frá sér í gær segir: „Rétturinn hefur fallist á að kröfur mínar er varða atburði sem áttu sér stað í Englandi og verða því réttilega bornir undir og leiddir til lykta af enskum dómstólum. Jóhannes Jóhannsson, sem er meðlimur í slitastjórn Kaupþings, þarf nú að skýra fyrir enskum dómstólum hlutverk hans í því sem kom fyrir mig og fyrirtækin mín og ég hyggst sækjast um áfrýjunarleyfi til að sjá til þess að mál Kaupþings þurfi að fara fyrir enska dómstóla líka.“