Öldungardeildarþingmaðurinn Ted Cruz hefur tilkynnt á Twitter að hann hyggist bjóða sig fram í forvali repúblikana fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum haustið 2016. Hann er fyrsti stóri frambjóðandinn til þess að tilkynna formlega um framboð. Hann mun halda ræðu í Liberty University í Virginíu í dag.
I'm running for President and I hope to earn your support! pic.twitter.com/0UTqaIoytP
— Ted Cruz (@tedcruz) March 23, 2015
Cruz er 44 ára og er öldungardeildarþingmaður fyrir Texas. Hann tilheyrir teboðshreyfingunni innan Repúblikanaflokksins. Cruz birti stutt myndband með tilkynningunni þar sem hann sagði að það þyrfti nýja kynslóð af hugrökkum íhaldsmönnum til að gera Bandaríkin frábær á ný. Hann væri tilbúinn til að leiða þann slag.
Framboð hans hefur þegar verið gagnrýnt, en Jerry Brown, ríkisstjóri í Kaliforníu, sagði í gærkvöldi að hann væri algjörlega óhæfur til að vera í framboði, vegna efasemda sinna um hnattræna hlýnun.