Teitur Björn Einarsson, lögfræðingur og varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, hefur verið ráðinn sem aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Þetta staðfestir Brynjar Níelsson, annar aðstoðarmaður Jóns, í samtali við Kjarnann.
Teitur var kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi árið 2016, en hann hefur verið varaþingmaður flokksins frá árinu 2017. Í síðustu kosningum var hann í þriðja sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi.
Þetta er ekki fyrsta starf Teits sem aðstoðarmaður, en á árunum 2014-2016 var hann aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. fyrir það starfaði hann hjá lögmannsstofunum LOGOS og Opus, auk þesss sem hann var í forsvari fyrir fiskvinnslufyrirtækið Eyrarodda hf. á Flateyri.