Tekju- og eignastaða Íslendinga hefur batnað verulega frá hruni, samkvæmt tölum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út í dag. Ráðuneytið tók saman upplýsingar um 5 prósent ríkasta hóp landsmanna og hin 95 prósent þjóðarinnar.
Skuldastaða 95 prósenta landsmanna hefur batnað og eru skuldir nú 43 prósentum minni en þær voru í árslok 2008. 5 prósentin sem mest eiga skulda 18 prósentum minna en í lok ársins 2008. Eignir 95 prósenta þjóðarinnar drógust saman um 26 prósent að raunvirði í hruninu en hjá 5 prósentunum drógust eignirnar saman um 22 prósent.
Tekjur, eignir, skuldir og eigið fé þeirra 5% landsmanna sem eiga mestar eignir sem hlutfall af heildartekjum, heildareignum, heildarskuldum og heildar eigin fé allra landsmanna. Myndir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Tekjur þeirra 5 prósenta sem mest eiga á Íslandi uxu hratt sem hlutfall af heildartekjum allra fram að hruni. Eftir hrun lækkuðu þær verulega en hafa hækkað á nýjan leik undanfarin misseri. Þessi hópur átti um fjórðung allra eigna fyrir hrun og í hruninu minnkuðu eigur þessa fólks minna en eigur annarra. Þess vegna urðu eignir ríkasta fólksins meira en þriðjungur heildareigna eftir hrunið.
Eigið fé ríkustu 5 prósentanna var um 40 prósent alls eigin fjárs fyrir hrunið en eftir hrunið fór það langt yfir helming heildareiginfjár á Íslandi, vegna þess að eigin fé hinna dróst saman. Þessi ríkasti hópur skuldaði 10 prósent allra skulda fyrir hrun en það hlutfall hefur stöðugt lækkað síðan, að sögn fjármálaráðuneytisins.
Eigið fé vaxið hraðar hjá öðrum en þeim allra ríkustu
Hlutdeild eignamesta 1% í eigin fé 2000-2013/2014.
Fjármálaráðuneytið gerði einnig samanburð á milli Íslands og annarra landa þegar kemur að ríkasta 1 prósenti þessara landa, en tekur fram að gögn um tekjudreifingu eru ekki tekin saman með samræmdum hætti og því er erfitt að bera þetta saman. Gögnin sem notuð voru gefa til kynna að hlutdeild 1 prósents eignamestu einstaklinga í heildar eigin fé er svipuð hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. „Hvergi á Norðurlöndum, utan mögulega Danmerkur, eru nein teikn á lofti um að þessi hópur taki til sín vaxandi hlutfall af eigin fé,“ segir fjármálaráðuneytið. „Frá því að eigið fé var minnst eftir hrun hefur það vaxið hraðar hjá öðrum en þeim allra ríkustu á Íslandi.“