Tekjuhæsti fimmtungur Íslendinga var með 3,1 sinnum hærri tekjur en tekjulægsti fimmtungurinn á síðasta ári. Það er nokkuð lægra en árið 2009, þegar tekjur efsta fimmtungsins voru 4,2 sinnum hærri en tekjur lægsta fimmtungsins.
Hagstofa Íslands birti í dag niðurstöður lífskjararannsóknar þar sem notast er við fimmtungsstuðul og Gini-stuðulinn. Í frétt Hagstofunnar kemur fram að á árinu 2014 hafi dreifing tekna á Íslandi verið jafnari milli fólks en áður hefur sést í lífskjararannsóknum stofnunarinnar en hún var fyrst framkvæmd árið 2004.
Gini-stuðullinn mældist 22,7 á síðasta ári en hæstur var hann árið 2009. Þá stóð hann í 29,6. Gini-stuðullinn væri 100 ef einn einstaklingur hefði allar tekjur samfélagsins en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur. Árið 2013 er nýjasta árið sem býður uppá alþjóðlegan samanburð en þá var Ísland með næst lægsta Gini- og fimmtungastuðulinn í Evrópu á eftir Noregi.
Átta prósent undir lágtekjumörkum
Í fyrra voru 7,9 prósent Íslendinga undir lágtekjumörkun, samkvæmt rannsókn Hagstofunnar. Hlutfallið er hið sama og árið 2012. Hlutfall þeirra sem voru undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun árið 2014 mældist 11,1 prósent.
Háskólamenntaðir eru í minni hættu á að vera fyrir neðan lágtekjumörk en þeir sem hafa minni menntun. Hins vegar var minni munur á þeim sem voru með grunnmenntun og þeim sem voru með framhalds- og starfsmenntun. Leigjendur voru mun líklegri til að vera fyrir neðan lágtekjumörk en húseigendur, 15,9 prósent samanborið við 5,8 prósent.