Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 2,6 prósent umfram verðbólgu á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu um tekjuþróun heimila.
Samkvæmt tölunum námu heildartekjur einstaklinga að meðaltali rúmlega 642 þúsund krónum á hverjum mánuði á ársfjórðungnum, en heildarútgjöldin tæpum 288 þúsund krónum. Ráðstöfunartekjur einstaklinga voru því að meðaltali 354 þúsund krónur á mánuði.
Rúmur helmingur tekna heimilanna voru launatekjur, en tæpur fimmtungur þeirra voru lífeyrisgreiðslur eða aðrar félagslegar bætur. Þá voru eignatekjur um 6 prósent heildarteknanna.
Alls jukust tekjur heimilanna um tæp 7 prósent á mann á tímabilinu, miðað við sama tímabil í fyrra. Þyngst vegur þar aukning á lífeyristekjum og félagslegum tilfærslum.
Samkvæmt Hagstofunni skýrast auknar lífeyristekjur heimilanna að hluta til af tímabundinni heimild til úttektar séreignarlífeyrissparnaðar, en auknar félagslegar tilfærslur skýrast af auknu atvinnuleysi og öðrum úrræðum stjórnvalda. Launatekjur á mann jukust einnig á fjórðungnum, ef miðað er við sama tímabil í fyrra, úr 350 þúsund krónum á mánuði í 362 þúsund krónur á mánuði.
Hins vegar hefur vísitala neysluverðs einnig hækkað töluvert á sama tíma, en meðaltal verðbólgunnar á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 4,2 prósentum. Því hefur kaupmáttur einstaklinga aukist um 2,6 prósent á fyrsta ársfjórðungi.