Hið opinbera skilaði 288,3 milljarða króna halla í fyrra, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu um opinber fjármál. Hallann má að mestu leyti rekja til lakrar afkomu ríkissjóðs, en hann skilaði 266 milljarða króna halla, sem er tveimur milljörðum krónum lakari niðurstaða en gert var ráð fyrir í fjárlögum í fyrra.
Mikill halli en lægra skuldahlutfall
Halli hins opinbera nam alls 8,9 prósent af landsframleiðslu og jókst á milli ára. Hann hefur ekki verið jafnmikill frá árinu 2008, þegar hann nam rúmum tólf prósentum af landsframleiðslu.
Samkvæmt Hagstofu jukust tekjur um 6,1 prósent á síðasta ári, en skuldir um 7,4 prósent. Þrátt fyrir skuldavöxt var hagvöxturinn enn meiri í fyrra, sem leiddi til þess að skuldahlutfall ríkissjóðs, að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum, sem hlutfall af landsframleiðslu dróst saman úr 100,3 prósentum í 96,2 prósent. Skuldahlutfall sveitarfélaganna lækkaði sömuleiðis, úr 13,8 prósentum í 13,7 prósent af landsframleiðslu.
Vanmat á tekjum og gjöldum
Í fjárlögum fyrir árið 2021 var gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs myndu nema 772 milljörðum króna í fyrra. Tölur Hagstofu benda til þess að þetta hafi verið töluvert vanmat, en samkvæmt þeim námu tekjurnar 911 milljörðum króna.
Þar munaði mest um tekjur af virðisaukaskatti, sem spáð var að yrði 233 milljarðar króna, en reyndust vera 125 milljörðum krónum meiri. Sömuleiðis voru tekjur af tekjuskati einstaklinga tíu milljörðum krónum meiri en spáð var, auk þess sem tekjur af tryggingagjöldum og tekjuskatti lögaðila voru vanmetin um tvo milljarða hvort um sig.
Einnig voru útgjöld ríkissjóðs vanmetin í fjárlögunum, en talið var að þau yrðu 1.036 milljarðar króna í fyrra. Þau reyndust hins vegarvera 142 milljörðum meiri, eða um 1.178 milljarðar króna. Afkoman, sem búist var við að yrði 264 milljarðar króna, reyndist því vera tveimur milljörðum krónum lakari, eða um 266 milljarðar króna.