RÚV tapaði 209 milljónir króna í fyrra. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2014 sem RÚV skilaði tapi. Rekstrartekjur voru tæplega 6,9 milljarðar króna og nánast þær sömu í krónum talið og árið áður. Rekstrargjöld voru tæplega 6,8 milljarðar króna og jukust um 174 milljónir króna milli ára. Fjármagnsgjöld, aðallega vegna skuldabréfaútgáfu, voru svo 353,2 milljónir króna.
Þetta kemur fram í ársreikningi RÚV sem birtur var í gær.
Þess má þó geta að afkoma RÚV á árunum 2013 til 2019, sem var samtals jákvæð um 1,5 milljarða króna, skýrðist fyrst og fremst af hagnaði vegna sölu byggingaréttar á lóð félagsins við Efstaleiti. Ef litið er á afkomu félagsins fyrir tekjuskatt og söluhagnað hefði heildarafkoma félagsins á þessu tímabili var hún neikvæð um rúmlega 50 milljónir króna. Án lóðasölunnar hefði RÚV ohf. því verið ógjaldfært.
Auk þess samdi RÚV í maí 2019 við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) um að breyta skilmálum á skuldabréfi í eigu sjóðsins sem er tilkomið vegna ógreiddra lífeyrisskuldbindinga. Í samkomulaginu fólst að verulega var lengt í greiðsluferli bréfsins, en lokagjalddagi þess er nú 1. október 2057 í stað 1. apríl 2025. Samhliða var höfuðstóll hækkaður og vextir lækkaðir úr fimm prósentum í 3,5 prósent. Þetta gerði það að verkum að greiðsla skuldarinnar mun teygja sig til nýrra kynslóða en fjármagnsgjöld sem RÚV greiðir árlega munu lækka umtalsvert. Þau voru, líkt og áður sagði, 353,2 milljónir króna í fyrra.
Auglýsingatekjur voru 1,6 milljarðar króna
Sérstaklega er fjallað um áhrif COVID-19 heimsfaraldursins á rekstur RÚV í ársreikningnum. Þar segir að auglýsingatekjur hafi minnkað í samræmi við samdrátt í atvinnulífinu, alls um tæplega 200 milljónir króna, tekjutapið í heild sinni er metið á tæplega 300 milljónir króna. Alls námu tekjur af samkeppnisrekstri á árinu 2020 1.946 milljónum króna. Þar af námu tekjur af auglýsingum 1.624 milljónum króna.
Í ársreikningnum er sagt að áætlum fyrir árið 2021 geri ráð „fyrir meiri tekjusamdrætti, bæði vegna minni auglýsingatekna og minni þjónustutekna og því nauðsynlegt að sýna áfram aðhald í rekstri til að markmið um hallalausan rekstur á árinu náist.“
Í umsögn Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra RÚV um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021 kom fram að það myndi vanta um 600 milljónir króna í fjármögnun RÚV. „Fyrirsjáanlegt er að mæta þurfi þessu með breytingum og samdrætti í dagskrárgerð og fréttaþjónustu RÚV,“ sagði enn fremur í umsögninni.
Síðan þá hefur verið skrifað undir nýjan þjónustusamning RÚV við mennta- og menningarmálaráðuneytið, en hann gildir afturvirkt frá 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023. Í ársreikningnum segir: „Með samningnum er RÚV tryggður nauðsynlegur stöðugleiki sem gerir félaginu kleift að gera áætlanir til lengri tíma.“