Breytingar á lögum um fiskeldisgjald sem lagðar eru til í tekjubandormi sem fylgir fjárlagafrumvarpi næsta árs munu gera það að verkum að það mun skila ríkissjóði mörg hundruð milljónum króna í auknar tekjur á næstu árum. Breytingarnar eru tvenns konar og gera báðar það að verkum að gjaldið hækkar upp í alls 1,5 milljarð króna á næsta ári. Ef þær verða ekki innleiddar myndi gjaldið vera rétt rúmur milljarður króna.
Önnur breytingin, sú sem snýr að viðmiðunartíma sem á að liggja til grundvallar gjaldtökunnar, er ekki alveg ný. Raunar var hún til staðar í upprunalegu frumvarpi sem samþykkt var sumarið 2019 og varð til þess að ríkissjóður fór að innheimta gjald vegna sjókvíaeldis. Viðmiðunartímanum var hins vegar breytt af meirihluta atvinnuveganefndar við meðferð málsins, með þeim afleiðingum að gjaldið lækkaði. Nú á að snúa þeirri ákvörðun við.
Viðmiðunartímabilið sem hvarf
Þegar frumvarp til laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóðs var lagt fram í mars 2019 af Kristjáni Þór Júlíussyni, þáverandi sjávarútvegsráðherra, var skrifað að fjárhæð gjaldsins ætti að vera 3,5 prósent af nýjasta 12 mánaða meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi fyrir ákvörðunardag.
Í nefndarálitinu er þessi breyting ekkert útskýrð, en heimsmarkaðsverð á eldisfiski er að jafnaði lágt á því tímabili sem notast var við til að ákvarða gjaldið sem greiða átti í ríkissjóð. Breytingin sem atvinnuveganefnd lagði til lækkaði því greiðslur þeirra fyrirtækja sem stunda sjókvíaeldi í ríkissjóð.
Meirihlutann í nefndinni mynduðu þingmenn stjórnarflokkanna þriggja ásamt þingmönnum Miðflokksins.
Gjaldtakan dugaði ekki fyrir kostnaði
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) lögðust hart gegn samþykkt frumvarpsins. Í umsögn þeirra sagði meðal annars að hugmyndir um skattlagningu væru ótímabærar og að ætla mætti „að markmið stjórnvalda um auknar tekjur af laxeldi náist fyrst og fremst með því að gæta að svigrúmi greinarinnar til fjárfestingar svo hún geti haldið áfram að vaxa og verði arðbær. Það er eina réttláta og skynsamlega leiðin að settu marki. Vanhugsuð lagasetning sem hér er boðuð getur haft mjög neikvæðar afleiðingar í för með sér - sér í lagi þegar um er að ræða atvinnugrein á viðkvæmu stigi uppbyggingar.“
Frumvarpið var samt sem áður samþykkt og álagningin lagðist á frá 1. janúar 2020. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi þess árs var reiknað með að gjaldið myndi skila 134 milljónum króna í ríkissjóð á árinu 2020. Þar kom einnig fram að til stæði að leggja 175 milljónir króna í að bæta stjórnsýslu, eftirlit og heilbrigðiskröfur í fiskeldi á því ári, eða 41 milljónum króna minna en lögfest gjaldtaka vegna fiskeldis átti að skila í ríkiskassann.
Mun skila mörg hundruð milljónum í viðbótartekjur
Gjaldið leggst á þá rekstraraðila sem stunda sjókvíaeldi. Aðrir sem stunda fiskeldi, t.d. á landi, eru undanþegnir gjaldinu. Þegar lögin um gjaldtökuna voru sett var samþykkt að veita þessum aðilum aðlögun að því að greiða fullt gjald. Á næsta ári munu sjóeldisfyrirtækin greiða 4/7 af því hlutfalli reiknistofnsins sem þeim mun frá árinu 2026 vera gert að greiða að fullu.
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2023, sem lagt var fram fyrr í þessum mánuði, eru tilteknar breytingar á verðmætagjaldi vegna sjókvíaeldis. Annars vegar er gjaldhlutfallið hækkað úr 3,5 í fimm prósent og hins vegar er viðmiðunartímabil gjaldsins fært nær í tíma. Nánar tiltekið er því breytt þannig að nú er miðað við almanaksárið, en ekki ágúst, september og október. Báðar breytingarnar munu gera það að verkum að innheimt gjald mun hækka.
Nú er búist við að gjaldið skili 1,5 milljarði króna á næsta ári. Það er um 450 milljónum krónum meira en sjóeldisfyrirtækin hefðu annars greitt í ríkissjóð á næsta ári. Tekjuauki ríkissjóðs verður 650 milljónir króna á árinu 2024 og 760 milljónir króna árið 2025. Þegar aðlögun fyrirtækjanna að gjaldtökunni verður lokið árið 2026 mun fiskeldisgjaldið verða um 800 milljónum krónum hærra en ef gjaldhlutfallið hefði ekki verið hækkað og viðmiðunartímabilinu ekki verið breytt.