Málefni útlendinga í víðum skilningi eru mikilvægur og viðamikill málaflokkur, sem hefur samt verið á hrakhólum í íslenska kerfinu lengi. Bjartsýnt fólk gæti hins vegar farið að vona að nú fari að rofa til í þessum málum.
Á síðasta kjörtímabili var ráðist í heildarendurskoðun á útlendingalögum, og frumvarp var lagt fram þess efnis á síðasta þingi kjörtímabilsins. Fyrir því máli fór eins og nokkrum öðrum stórum málum þeirrar ríkisstjórnar, það náðist ekki að klára það. Nefnd sem þá var skipuð til að vinna að endurskoðuninni starfaði í eitt ár, frá miðju ári 2011, og í hennar tillögum var að finna ýmsar úrbætur í útlendingamálum. Einhverju úr þeirri vinnu hefur reyndar verið hrint í framkvæmd, eins og því að setja á stofn kærunefnd útlendingamála, en heildarendurskoðun hefur enn ekki orðið.
Og á nýju kjörtímabili, með nýrri ríkisstjórn, var ákveðið að búa til nýja nefnd til að skoða sama mál. Í þetta skiptið þverpólitísk nefnd þingmanna.
Nú eru liðin fjögur ár, tvö undir stjórn hvorrar ríkisstjórnar, og ekki hefur útlendingalöggjöfin enn verið endurskoðuð.
En nú gæti það loksins verið að gerast. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, greindi nefnilega frá því í Vikulokunum á Rás 1 í gærmorgun að þverpólitíska nefndin, sem hefur starfað undir stjórn Óttars Proppé undanfarið eitt og hálft ár, væri á lokametrunum með frumvarp um heildarendurskoðun á útlendingalögunum. Nefndin muni skila frumvarpinu til innanríkisráðuneytisins innan tíðar. Þá er það undir ráðuneytinu komið hvort og hvenær málið fer fyrir þingið, en fyrst nefndin er þverpólitísk hlýtur að vera hægt að afgreiða það örugglega. Er það ekki?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.