Samband íslenskra sveitarfélaga telur að sú boðaða breyting á útlendingalögum að fella niður alla grunnþjónustu til hælisleitenda 30 dögum eftir að endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi um umsókn hans til verndar liggur fyrir, muni fjölga heimilislausum á Íslandi. Það muni hafa í för með sér aukningu á álagi á félagsþjónustu sveitarfélaga og aukinn kostnað fyrir þau. „Óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkrar neyðar hlýtur ávallt að vera aukin hætta á því að hlutaðeigandi einstaklingar verði berskjaldaðri fyrir hver kyns misneytingu, mansali og ofbeldi.“
Þetta kemur fram í umsögn sambandsins um framlagt frumvarp Jóns Gunnarssonar um breytingar á lögum um útlendinga sem nú er til meðferðar á þingi.
Fá ekki þjónustu 30 dögum eftir synjun
Umsækjendur um alþjóðlega vernd njóta margvíslegrar þjónustu á meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá stjórnvöldum, svo sem húsnæðis, framfærslu og annarrar grunnþjónustu. Í grunnþjónustu felst m.a. heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna andlegra veikinda, tannlæknaþjónusta og grunnskóla- og leikskólaganga fyrir börn.
Í frumvarpinu eru meðal annars lagðar til breytingar á er lúta að því að skýra frekar þau réttindi sem útlendingum, sem lögum samkvæmt ber að fara af landi brott, stendur til boða og þær breytingar sagðar í samræmi við löggjöf og framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum.
Helsta breytingin er sú að ný meginregla er lögð til. Í henni felst að útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd njóti áfram allra þeirra réttinda sem lögin kveða á um þar til hann hefur farið af landi brott en að hámarki í 30 daga frá því ákvörðun verður endanleg á stjórnsýslustigi.
Frá þeim tímafresti eiga öll réttindi niður að falla niður, með nokkrum tilgreindum undantekningum sem varða persónulega eiginleika eða sérstakar aðstæður sem taka þarf tillit til.
Aukningin öll vegna Venesúela og Úkraínu
Samkvæmt flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna voru 103 milljónir manna á flótta í heiminum um mitt þetta ár. Alls 72 prósent þeirra koma upphaflega frá fimm löndum: Sýrlandi, Venesúela, Úkraínu, Afganistan og Suður-Súdan.
Mikil aukning hefur orðið á komu flóttamanna til Íslands það sem af er ári, en 3.467 sóttu um vernd á Íslandi á fyrstu tíu mánuðum ársins. Alls 1.999 þeirra eru frá Úkraínu og 764 frá Venesúela. Átta af hverjum tíu eru því frá þessum tveimur löndum.
Þann 4. mars á þessu ári ákvað Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að virkja ákvæði útlendingalaga sem fól í sér að móttaka flóttamanna frá Úkraínu hérlendis myndi ná til sömu skilgreindu hópa og þeirra sem Evrópusambandið hafði ákvarðað. „Þessi aðferð er fyrst og fremst til þess að geta veitt þeim sem flýja Úkraínu skjóta og skilvirka aðstoð, nánar tiltekið tímabundna vernd, án þess að móttakan og aðstoðin verði verndarkerfi Íslands ofviða.“
Fyrir utan þá sem koma frá þessum tveimur ríkjum hafa komið hingað 704 flóttamenn á fyrstu tíu mánuðum ársin s. Það eru færri en komu hingað árin 2016, 2017, 2018, 2019 og 2021. Eina árið sem það komu færri var 2020, þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði af mestum krafti og lamaði alþjóðlegar samgöngur. Þá komu hingað til lands 654 flóttamenn.
Þarf meiri stuðning við sveitarfélög
Stór hluti þeirrar þjónustu sem flóttafólk þarf á að halda og er tryggð samkvæmt lögum kemur frá sveitarfélögum sem þeir eru búsettir í. Langflestir flóttamenn hafa verið búsettir í þremur sveitarfélögum: Reykjavík, Hafnarfirði og Reykjanesbæ. Þeir sækja því þjónustu til þeirra.
Líklegt að heimilislausum fjölgi
Sambandið tekur fram í umsögn sinni að þær lagabreytingar sem felast í frumvarpinu muni einar og sér ekki leysa allan vanda heldur þurfi jafnframt að liggja fyrir skýr stefna og hlutverkaskipting, ásamt nauðsynlegri fjármögnun sem tryggi skilvirkt verklag við framkvæmd laganna. „Óhætt er að segja að um sé að ræða eina af stærstu áskorunum í íslenskri stjórnsýslu um þessar mundir.“
Á meðal þess sem Sambandið bendir á, í ljósi ábendinga sem það hefur móttekið, er að það telji mikilvægt að gæta almennt að því að skýrt sé hvað taki við eftir að 30 daga fresti lýkur. Það er að segja hvað tekur við þegar réttur einstaklings til grunnþjónustu fellur niður og bið kann að myndast með tilliti til brottflutnings hans. „Leiði lagabreytingin til þess að auknar skyldur falli á sveitarfélög, með tilheyrandi kostnaðarauka, er jafnframt mikilvægt að sveitarfélög fái hann bættan að fullu. Þá er og líklegt að við þessar aðstæður fjölgi heimilislausum einstaklingum með tilheyrandi álagi á félagsþjónustu sveitarfélaga og aukins kostnaðar í þeim efnum.“