Sérfræðingar Capacent telja virði fasteignafélaganna þriggja í Kauphöllinni, það eru Eik, Reitir og Reginn, vera á bilinu 12 til 24 prósentum hærra en gengi hlutabréfa félaganna gefur til kynna í dag. Virði Eikar er metið 19 prósent hærra en gengi bréfa félagsins er í dag, hlutabréfagengi Reita er metið 12 prósent yfir verði hlutabréfa félagsins í dag og virði Regins er metið 24 prósent yfir markaðsgengi.
Fjölmiðlar hafa greint frá virðismati Capacent á fasteignafélögunum í dag. Í greiningunni er það meðal annars gagnrýnt hvernig staðið var að hlutafjárútboði Eikar og Reita.
Í greiningunni er Eik sagt „ungt og efnilegt félag“ í örum vexti. Verðmatið, um 19 prósentum hærra en gengi bréfanna í dag, gerir ráð fyrir að stjórnendum félagsins takist að bæta nýtingarhlutfall fasteigna í útleigu. „Á móti kemur að við setjum frekar hátt sértækt álag á veginn fjármagnskostnað félagsins. Gangi rekstraráætlun eftir sem var birt í skráningarlýsingu og þegar meiri reynsla verður komin á rekstur félagsins mun það leiða til hærra verðmats. Sömuleiðis mun verðmatið lækka ef þessu verður öfugt farið,“ segir í greiningu Capacent. Gengi bréfa á markaði við lok viðskiptadags 18. júní var 6,3 krónur á hlut en gengi samkvæmt verðmati Capacent er 7,5 krónur.
„Gengi Reita skv. verðmati er 71,8 sem er 12% yfir gengi á markaði. Fá vaxtatækifæri virðast vera á markaði með atvinnu-húsnæði. Töluvert framboð virðist vera af skrifstofuhúsnæði og virðist helst vera eftirspurn eftir húsnæði fyrir hótel og veitingastaði. Fasteignafélög eru í eðli sínu ekki mikil vaxtarfélög og treysta fremur á stöðugan rekstur og greiðslu arðs,“ segir um Reiti fasteignafélag.
„Reitir gátu ekki greitt arð vegna rekstrarársins 2014 vegna íþyngjandi skilyrða í fjármögnun. Eiginfjárhlutfall Reita er hátt eða um 39% og veginn fjármagnskostnaður félagsins er hærri en ella vegna mikils vægis eigin fjár í fjármögnun. Lokið hefur verið við endurfjármögnun félagsins og eru íþyngjandi skilyrði í fjármögnun ekki lengur til staðar. Ef dregið væri úr vægi eigin fjár í fjármögnun mun veginn fjármagnskostnaður lækka og verðmatsgengi hækka.“
Að mati Capacent er staðsetning eigna lykillinn að verðmati og framtíðarvexti Regins. „Gengi Regins skv. verðmati er 17,8 sem er 24% yfir gengi á markaði. Rétt er að hafa í huga að óvissa er varðandi rekstur Fastengis sem Reginn keypti nýverið. Án Fastengis væri gengi félagsins 16,3 og vel yfir gengi á markaði. Fjárfestar geta því keypt upp að genginu 16,3 og beðið þangað til að árangur fjárfestingar félagsins í Fastengi kemur betur í ljós. Við fyrstu sýn virðast kaupin hafa verið góð og styrkja enn frekar sjóðstreymi félagsins.
Út frá verðmati og jákvæðum áhrifum af kaupum á Fastengi kemur slakt gengi félagsins á hlutabréfamarkaði að undanförnu á óvart. Ekki eru allar eignir félagsins staðsettar í „Smartlandi“ en sjóðstreymið er sterkt og mat fjármálaráðgjafar Capacent að hagstæðasta verðið á meðal fasteignafélaganna þriggja sé nú í Reginn.
Lykillinn að verðmati og framtíðarvexti Regins liggur í staðsetningu eigna. Félagið mætti bæta upplýsingagjöf sína verulega t.d. um tegundir, stærð, nýtingarhlutföll og fjölda einstakra eigna og leigutaka fyrir einstök svæði,“ segir í greiningunni.