Bílgreinasambandið og Samtök verslunar og þjónustu telja að þær breytingar sem lagðar eru til í fjárlögum næsta árs varðandi skattlagningu ökutækja séu „ekki aðeins varasamar heldur einnig órökréttar og illa undirbúnar“.
Í umsögn hagsmunasamtakanna tveggja segir að myndin sem blasi við sé að „um þessar mundir liggi engin langtímaáætlun eða stefnumótun til grundvallar tillögunum“, sem fyrir vikið birtist sem „einskonar fjárhagslegar björgunaraðgerðir vegna fjármála ríkisins árið 2023“.
Næstum fimm milljarða viðbótartekjur af bílum
Eins og Kjarninn fjallaði um eftir að fjármála- og efnahagsráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið í september birtust í því fyrstu skrefin í að breyta gjaldtöku á bíla, en breytingar sem boðaðar eru á vörugjöldum og bifreiðagjöldum á næsta ári eiga að skila 4,9 milljörðum króna í viðbótartekjur fyrir ríkissjóð ef áætlanir fjármála- og efnahagsráðuneytisins stemma.
Þetta líst Bílgreinasambandinu og SVÞ ekkert á. Segja þau að boðuð lágmarksvörugjöld á fólksbifreiðar muni draga úr verðmun á sparneytnum ökutækjum og eyðslufrekum og „veikja mjög“ þá efnahagslegu hvata til orkuskipta sem eru í núgildandi kerfi vörugjalds á ökutæki.
Hið sama muni fyrirhugað lágmarksbifreiðagjald gera og það verði þannig fýsilegra að bæði kaupa og reka eyðslufrekar bifreiðar.
Veruleg hækkun á verði rafbíla fyrirsjáanleg
Í umsögn hagsmunasamtakanna er bent á að ívilnanir og efnahagslegir hvatar skattkerfisins til orkuskipta falli að miklu leyti úr gildi eða missi virkni undir lok þessa árs og útlit sé fyrir að 20 þúsund rafbíla kvótinn, sem skattaafsláttur er veittur af, verði uppurinn um mitt næsta ár.
Samspil þessa við boðuð lágmarksvörugjöld segja samtökin að muni hafa veruleg áhrif til hækkunar útsöluverðs rafmagnsbifreiða og birta samtökin í umsögn sinni mynd af nokkrum bílum framan við bílaumboð og eigin útreikningum af því hvað útsöluverð þessara bíla myndi hækka mikið, við lok skattaívilnana og álagningu 5 prósent vörugjalda.
„Verðmunur mun aukast umtalsvert þegar litið er til útsöluverðs bensín- og dísilbifreiða annars vegar og rafmagnsbifreiða hins vegar. Virkni efnahagslegra hvata til orkuskipta munu dragast harkalega saman. Þar með eru líkur á að eftirspurn kaupenda færist í auknum mæli að bifreiðum sem ganga, að hluta eða heild, fyrir jarðefnaeldsneyti,“ segir í umsögn samtakanna.
Þau birta svo eigin spá um sölu bíla fram til ársins 2031, þar sem gert er ráð fyrir að 60 þúsund rafbílar seljist á árunum 2022-2030 sem myndi þýða að rafbílar yrðu 75 þúsund talsins í bílaflota landsmanna við lok árs 2030. Það er um fjórðungur þess fjölda bíla sem samtökin gera ráð fyrir að verði í umferð.