Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir að fjarskipta- og fjölmiðlafélagið stefni á að selja frekari innviði á þessu ári. Sýn seldi óvirka farsímainnviði sína í fyrra til bandarísku fjárfestanna Digital Bridge og hagnaðurinn af þeirri sölu var 6,5 milljarðar króna, en 2,5 milljarðar af þeirri upphæð var bókfærður í fyrra.
Söluhagnaðurinn af innviðunum gerði það að verkum að Sýn skilaði hagnaði á árinu 2021 í fyrsta sinn frá árinu 2018. Án einskiptishagnaðar af sölunni hefði Sýn skilað tapi í fyrra.
Í viðtali við nýjasta tölublað Frjálsrar verslunar segir Heiðar að verið sé að skoða að selja ýmsa aðra innviði á þessu ári. „Við erum að skoða að selja svokallað IPTVkerfi, sem myndlyklarnir okkar keyra á. Við höfum einnig tala um að selja hluta af gagnaflutningskerfinu okkar, það er fastlínukerfið okkar, sem við rekum á um 800 stöðum í kringum landið.“
Varfærnislegt mat á söluhagnaði á þessum innviðum sé um sex milljarðar króna að sögn Heiðars.
Heiðar hefur áður boðað sölu á þessum innviðum, í viðtali við Fréttablaðið í maí í fyrra, en þar nefndi hann ekki sérstaka tölu yfir væntan söluhagnað.
Þeim fækkar sem leigja myndlykil til að horfa á sjónvarp
Fjöldi þeirra sem er með sjónvarp yfir IP-net, sem er það sjónvarp sem miðlað er í gegnum ADSL- eða ljósleiðaratengingar í myndlykla sem leigðir eru af fjarskiptafyrirtækjum, hefur fækkað umtalsvert á undanförnum árum samhliða því að streymisveitur á borð við Netflix, Amazon Prime, Viaplay og Disney+ hófu innreið sína inn á íslenskan sjónvarpsmarkað. Hægt er að horfa á slíkar í gegnum öpp á sjónvarpi og öðrum tækjum án þess að myndlykil þurfi til.
Síminn, sem rekur sjónvarpsþjónustuna Sjónvarp Símans, hefur þó styrkt stöðu sína á þeim tíma og er nú með 64,3 prósent markaðshlutdeild í sjónvarpi yfir IP-net. Það er rúmlega tíu prósentustigum meiri hlutdeild en fyrirtækið var með fyrir fjórum árum. Að sama skapi hefur áskrifendum þó einungis fjölgað um 897 á tímabilinu, eða um 1,6 prósent.
Það tap sem orðið hefur á myndlyklaáskrifendum hefur því allt orðið hjá Vodafone, sem selur sjónvarpsáskrift að Stöð 2 og hliðarstöðvum hennar. Um mitt ár 2017 var fjöldi áskrifenda að myndlyklum Vodafone 41.423 en í lok júní 2021 var sá fjöldi kominn niður í 31.524. Áskrifendum hefur því fækkað um tæplega tíu þúsund á fjórum árum, eða um tæplega fjórðung.
Við bætist að Sýn keypti 365 miðla á árinu 2017, en síðarnefnd fyrirtækið var með 5.914 áskrifendur að sjónvarpi yfir IP-net um mitt það ár. Þegar sá fjöldi er tekin með í reikninginn hefur áskrifendum Vodafone fækkað um þriðjung. Markaðshlutdeild Vodafone er nú 35,7 prósent.