Verð á skuldabréfum á föllnu íslensku bankanna er talið líklegt til að hækka í kjölfar þeirra aðgerða við losun hafta sem ríkisstjórnin kynnti á mánudag þar sem kröfuhöfum var boðið að semja í stað þess að lagður væri á þá stöðugleikaskattur. Þetta kemur fram í frétt á Bloomberg-fréttaveitunni.
Þar er haft eftir Anthony Liu, greinanda hjá Exotix Partners LLP, miðlarafyrirtæki í London, að samkomulagið sem kröfuhafarnir hafa gert við íslensk stjórnvöld sé gott. „Mér finnst það ekki ósanngjarnt, sem kom mér á óvart.“
Í frétt Bloomberg kemur fram að greiðslur kröfuhafa sem byggja á þeim samkomulögum sem náðst hafa um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda geti kostað slitabúin allt niður í 2,75 milljarða dala, um 365 milljarða króna, í samanburði við þá 5,1 milljarði dala, um 676 milljarða króna, sem þeir hefðu þurft að greiða ef stöðugleikaskatturinn hefði verið lagður á.
Liu telur að niðurstaðan eigi eftir að leiða til þess að verð á skuldabréfum föllnu bankanna, sem ganga kaupum og sölum á markaði, muni hækka umtalsvert. Hann telur að slitabú Glitnis, sem borgar mest allra slitabúa til ríkisins miðað við fyrirliggjandi samkomulög, sé að fá „besta dílinn“. Væntar endurheimtur í bú bankans hafa vanalega verið um 30 prósent af nafnvirði en Liu telur að þær muni nú hækka í um 35 prósent. Skuldabréfaverð bæði Glitnis og Kaupþings hækkaði lítillega á þriðjudag, samkvæmt Bloomberg.